Átti leik lífs síns gegn toppliðinu

Dejounte Murray skorar sigurkörfuna gegn Boston.
Dejounte Murray skorar sigurkörfuna gegn Boston. AFP/Kevin C. Cox

Dejounte Murray átti leik lífs síns til þessa í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt þegar hann fór á kostum í sigri Atlanta Hawks á toppliðinu Boston Celtics, 123:122, eftir framlengingu.

Murray skoraði 44 stig, ellefu þeirra í framlengingunni, og sigurkörfuna gerði hann fyrir Atlanta þegar 0,1 sekúnda var eftir af leiknum en sjá má hana í myndskeiðinu hér fyrir neðan. Þetta er hæsta stigaskor hans á ferlinum í deildinni.

Jayson Tatum var atkvæðamestur hjá Boston með 31 stig og 13 fráköst.

Með sigrinum er Atlanta nú einum sigri á eftir Chicago Bulls í 10. sæti Austurdeildar og kemst að óbreyttu í umspilið um sæti í úrslitakeppninni. Boston er sem fyrr með örugga forystu, ellefu sigurleikjum á undan Milwaukee sem er í öðru sæti Austurdeildar.

Í hinum leik næturinnar vann New Orleans Pelicans sigur á Milwaukee Bucks, 107:100, þar sem CJ McCollum skoraði 25 stig fyrir New Orleans en Giannis Antetokounmpo var með 35 stig og 14 fráköst  fyrir Milwaukee.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert