Iðnaðarsigur hjá deildarmeisturunum

Deontaye Buskey úr Hetti sækir á vörn Vals. Hjálmar Stefánsson …
Deontaye Buskey úr Hetti sækir á vörn Vals. Hjálmar Stefánsson er til varnar. mbl.is/Árni Sæberg

Valsarar sigruðu Hött í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum úrvalsdeildar karla í körfubolta. Eftir jafnan fyrri hálfleik sigu Valsmenn fram úr gestunum og lauk leiknum með 19 stiga sigri heimamanna, 94:75.

Fyrsti leikhluti var í járnum þar sem varnarleikurinn var í fyrirrúmi hjá báðum liðum. Frank Aaron Booker kom inn af bekknum og skoraði átta stig sem gáfu Val fjögurra stiga forskot, 23:19, inn í 2. leikhluta. Höttur lét dómgæsluna trufla sig í 2. leikhluta og brutu allt of mikið af sér, sem betur fer fyrir þá var Völsurum fyrirmunað að skora úr vítunum sínum og enduðu fyrri hálfleik með 56% vítanýtingu.

Í hálfleik var staðan 45:37 fyrir heimamenn, Valsmenn tóku fleiri fráköst og fóru oftar á vítalínuna en annars var ekki mikill munur á liðunum. Kristófer Acox og Frank Booker voru atkvæðamestir Valsmanna í fyrri hálfleik, Kristófer með 15 stig og Booker 11. Deontaye Buskey var stigahæstur Hattar með tíu stig og Nemanja Knezevic var drjúgur í vörninni með sjö fráköst.

Valur jók forskot sitt hægt og sígandi í 3. leikhluta og skelltu í lás í vörninni. Að loknum þriðja leikhluta var forskot Vals 12 stig, 67:55. Höttur átti engin svör við sterkum varnarleik deildarmeistaranna og voru gestirnir aldrei nálægt því að ógna sigri Vals. Leikurinn endaði 94:75 og Valsmenn eru afar sigurstranglegir í þessu einvígi.

Kristófer Acox og Taiwo Badmus skoraðu báðir 23 stig og tóku níu fráköst, hjá gestunum var Deontaye Buskey stigahæstur með 18 stig og Nemanja Knezevic skoraði níu stig og tók 12 fráköst.

Taiwo Badmus og Gustav Suhr-Jessen eigast við á Hlíðarenda í …
Taiwo Badmus og Gustav Suhr-Jessen eigast við á Hlíðarenda í kvöld. Árni Sæberg
Valur 94:75 Höttur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert