Frábær nýting Jókersins

Nikola Jokic í baráttu við Rudy Gobert í nótt.
Nikola Jokic í baráttu við Rudy Gobert í nótt. AFP/Matthew Stockman

Serbinn Nikola Jokic fór á kostum í liði Denver Nuggets þegar það hafði betur gegn Minnesota Timberwolves, 116:107, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Jókerinn gerði sér lítið fyrir og skoraði 41 stig, tók 11 fráköst, gaf sjö stoðsendingar og stal boltanum þrisvar sinnum.

Skotnýting Serbans knáa var þá hreint frábær en hann skoraði úr 16 af 20 skotum sínum utan af velli, sem er 80 prósenta nýting.

Honum gekk ekki jafn vel af vítalínunni þar sem hann skoraði úr sjö af 12 vítaskotum.

Anthony Edwards var stigahæstur í liði Minnesota með 25 stig.

Denver er á toppnum í Vesturdeildinni og Minnesota í öðru sæti og eru bæði lið fyrir nokkru síðan búin að tryggja sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar.

Dallas í úrslitakeppnina

Slóveninn Luka Doncic var hársbreidd var þrefaldri tvennu þegar lið hans Dallas Mavericks lagði Miami Heat að velli, 111:92.

Doncic skoraði 29 stig, tók níu fráköst og gaf níu stoðsendingar. Kyrie Irving bætti við 25 stigum.

Dallas er í fimmta sæti Vesturdeildarinnar og er með sigrinum í nótt búið að tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni.

Miami er í áttunda sæti í Austurdeildinni og fer að minnsta kosti í umspil um sæti í úrslitakeppninni og á veika von um að tryggja sér beint sæti í henni.

Úrslit næturinnar:

Denver – Minnesota 116:107

Miami – Dallas 92:111

Cleveland – Memphis 110:98

Atlanta – Charlotte 114:115

Brooklyn – Toronto 106:102

Milwaukee – Orlando 117:99

Oklahoma – San Antonio 127:89

LA Clippers – Phoenix 108:124

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert