Ótrúlega gaman að vera partur af þessu

Haukur Helgi Pálsson lék vel í kvöld.
Haukur Helgi Pálsson lék vel í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það gefur augaleið að það var varnarleikurinn sem skóp þetta,“ sagði Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, í samtali við mbl.is eftir að hann og liðsfélagar hans í Álftanesi unnu 77:56-heimasigur á Keflavík í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins.

„Við héldum þeim í 56 stigum. Þeir skoruðu mun minna eftir tapaða bolta núna en í síðasta leik og við einbeittum okkur að því að halda vel í boltann,“ sagði Haukur, en staðan í einvíginu er nú 1:1.

Álftanes náði fínu forskoti strax í fyrsta leikhluta og hélt því út allan leikinn og var sigurinn sanngjarn. „Við komum tilbúnir í leikinn og vorum agaðir. Þetta er leikur áhlaupa og við vissum að þeir kæmu til baka. Við vorum sterkir andlega að halda þessu.“

Álftanes er að spila í úrslitakeppninni í fyrsta skipti og var sigurinn í kvöld sá fyrsti hjá félaginu á stærsta sviðinu. „Það er ótrúlega gaman að vera partur af þessu. Það er mjög gaman að sjá stemninguna og kúltúrinn byggjast hérna. Þetta er mjög gaman.“

Næsti leikur er í Keflavík, en Álftanes hefur tapað báðum leikjum sínum á útivelli gegn Keflavík á tímabilinu til þessa.

„Við erum búnir að sýna að við getum unnið öll lið í deildinni. Við verðum að vera ófeimnir og hugrakkir,“ sagði Haukur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert