Vorum allt of góðir við þá

Stuðningsmenn Grindavíkur láta í sér heyra í kvöld.
Stuðningsmenn Grindavíkur láta í sér heyra í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Grindvíkingar eru komnir með bakið upp við vegginn fræga eftir tap gegn Valsmönnum í Íslandsmóti karla í körfubolta í kvöld.

Grindvíkingar verða að vinna til að knýja fram oddaleik í viðureign liðanna næsta sunnudag. Jónhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var hundsvekktur með tapið í kvöld þegar mbl.is ræddi við hann.

Hvernig útskýrir þú tapið í kvöld?

„Ég er mjög svekktur. Frammistaðan í kvöld var ekki góð. Við vorum undir í öllu sem heitir barátta og vilji. Valsmenn ganga á lagið og við erum í ströggli með að skora, tökum það með okkur í vörn.

Þá eigum við í vandræðum með allt í framhaldinu. Þeir börðu okkur bara niður og við lögðumst bara niður. Við þurfum að laga það. Síðan náum við ekki að skora,“ sagði Jóhann Þór í samtali við mbl.is.

Grindavík spilar vel í fyrsta og öðrum leikhluta en síðan í þriðja leikhluta kemur tímapunktur þar sem þið fáið dæmdar á ykkur tvær tæknivillur í röð. Er það ekki lykilpunktur í leiknum þar sem leiðir skilja?

„Valsmenn fá óíþróttamannslega villu úti á velli og svo er Julio De Asisse að tuða á bekknum og þetta bara gerðist,“ sagði hann.

Það vantaði framlag frá DeAndre Kane ekki satt?

„Jú, hann átti „off“ dag og var ekki líkur sjálfum sér hér í kvöld. Þannig virka bara íþróttir og íþróttamenn eiga svona daga en ég hef engar áhyggjur af því. Kane á eftir að koma til baka og sýna hvað hann getur,“ sagði Jóhann Þór.

En er það ekki jákvæði punkturinn í þessu að þið eigið heimaleikinn á sunnudag?

„Jú klárlega. Núna er þetta bara einn leikur sem við þurfum að vinna á sunnudag og núna þurfum við að koma saman og finna lausnir. Við þurfum að mæta klárir á sunnudag. Við þurfum að spila sókn og skora.

Við þurfum að finna í okkur það sem við höfum farið mjög langt á í vetur sem er þessi „bad boy feeling.“ Við vorum alltof „næs“ og alltof góðir við þá hér í kvöld.

Eins og þú sérð þá kann það ekki góðri lukku að stýra fyrir okkur þannig að við þurfum að laga það,“ sagði Jóhann Þór að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert