Sunna „sleppir dýrinu lausu“

Sunna Tsunami Davíðsdóttir er á leið aftur í búrið eftir …
Sunna Tsunami Davíðsdóttir er á leið aftur í búrið eftir langa bið. Ljósmynd/Hallmar Freyr

Bardagakonan Sunna Rannveig Davíðsdóttir snýr aftur í búrið 3. maí í Kansas City eftir langt hlé frá keppni en hún hefur glímt við þrálát handarmeiðsli.

Sunna, sem ekki hefur barist í 20 mánuði, hefur nú jafnað sig af meiðslunum sem hún fann fyrst fyrir í sínum öðrum atvinnubardaga, gegn Mallory Martin í mars 2017. Sunna vann þann bardaga og hefur raunar unnið alla þrjá atvinnubardaga sína, síðast með yfirburðum gegn Kelly D'Angelo.

Bardagakvöldið í Kansas City er talsvert frábrugðið því sem vanalegt er en um er að ræða útsláttarkeppnina Phoenix Rising þar sem átta konur munu berjast með útsláttarfyrirkomulagi. Þetta þýðir að ef Sunna vinnur sinn bardaga fer hún í undanúrslit og svo jafnvel úrslit, allt á sama kvöldi. Aðrar sem keppa þetta kvöld eru Janaisa Morandin, Mizuki Inoue, Brianna Van Buren, Sharon Jacobson, Juliana Lima, Danielle Taylor og Kailin Curran.

Líður eins og skógarbirni sem vaknar af dvala

„Ég hef beðið eftir að fá að sleppa dýrinu lausu mjög lengi og hlakka rosalega til að komast aftur í búrið þar sem ég er best geymd. Mér líður eins og skógarbirni sem er að vakna eftir langan vetrardvala, hungraður og hættulegur. Keppnisfyrirkomulagið er aðeins öðruvísi en við höfum fengið að venjast en ég hef að vissu leyti gert þetta áður með góðum árangi á Evrópumótunum tveimur sem ég sigraði árið 2015 þar sem ég þurfti að berjast marga bardaga með stuttu millibili. Ég hef reynsluna og er búin að bæta mig mikið tæknilega síðan ég barðist seinast. Það verður dregið um það hver mætir hverri þegar nær dregur bardagakvöldinu en það skiptir mig nákvæmlega engu máli hverri þeirra ég mæti fyrst. Þær eru allar grjótharðar og eru því allar ekta andstæðingar fyrir mig,” segir Sunna. Hún hefur æft af krafti þrátt fyrir fyrrnefnd meiðsli og er því klár í slaginn:

Sunna hefur unnið alla þrjá bardaga sína.
Sunna hefur unnið alla þrjá bardaga sína. Ljósmynd/Jón Viðar

„Ég er búin að æfa allan tímann sem meiðslin hafa verið að gróa. Ég vissi að það myndi taka langan tíma fyrir höndina að jafna sig og það gerði það að verkum að ég gat gefið mér tíma til að virkilega pæla í smáatriðunum og rifja upp undirstöðuatriði bardagaíþróttanna. Ég er búin að leggja mikla vinnu í að laga þá hluti sem ég þurfti að laga til að geta náð almennilegum framförum. Að æfa fram hjá meiðslum er eitthvað sem allt íþróttafólk þekkir og það er það sem ég er búin að vera að gera. Við það að geta ekki beitt hendinni almennilega er ég búin að þróa með mér nýjar hreyfingar og er búin að bæta við mig nokkrum nýjum vopnum. Ég get alveg fullyrt að ég er miklu heilsteyptari og fjölhæfari bardagakona en ég var áður en ég meiddist,” segir Sunna.

Fylltist eldmóði í Phuket

Í desember síðastliðnum fóru Sunna og Anna Rakel, dóttir hennar sem er 14 ára gömul, til eyjunnar Phuket við Taílandsstrendur í æfingaferð og dvöldu þar í mánuð. Sunna bjó þar árið 2013 og hefur lýst þeim tíma sem helsta orsakavaldinum í því að hún ákvað að gerast atvinnubardagakona. Þar keppti hún sína fyrstu bardaga og þar lagði hún grunninn að þeim bardagastíl sem einkennir hana.

„Ferðin til Phuket var nákvæmlega það sem mig vantaði upp á til að finna endanlega að ég væri tilbúin í slaginn aftur. Að skipta um umhverfi og vera á stað þar sem við mæðgurnar gátum bara verið að æfa, skoða fallega staði og njóta lífsins var í einu orði sagt æðislegt. Ég fann það úti að ég hlóðst öll upp og fylltist eldmóði. Phuket er einstakur staður og mér líður eins og þar sé hitt heimilið mitt. Ég á marga vini þarna og fólkið þarna er yndislegt. Þegar við komum svo aftur heim í janúar þá fann ég að ég var klár í næsta bardaga. Núna er hann staðfestur og ég get varla beðið.“

Keppt verður með útsláttarfyrirkomulagi í Kansas City og hugsanlega keppir …
Keppt verður með útsláttarfyrirkomulagi í Kansas City og hugsanlega keppir Sunna því þrjá bardaga sama kvöld. Ljósmynd/Hallmar Freyr



Sunna stefnir langt með sinn bardagaferil en gerir sér fyllilega grein fyrir því að það þarf að taka eitt skref í einu.

„Núna held ég bara áfram þaðan sem frá var horfið áður en ég meiddist. Ég ætla langt í þessari íþrótt og ég er að fá frábært tækifæri til að minna hressilega á mig í þessari útsláttarkeppni sem ég er með fyrir framan mig. Hvað gerist í kjölfarið kemur bara í ljós en ég er með góða tilfinningu fyrir þessu og veit að ég mun mæta sterkari en ég hef nokkurn tímann verið til leiks,” segir Sunna að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert