Reyni að rota hann eða klára með uppgjafartaki

Gunnar Nelson mætir Takashi Sato á laugardag.
Gunnar Nelson mætir Takashi Sato á laugardag. Ljósmynd/Snorri Björns

Japaninn Takashi Sato, andstæðingur Gunnars Nelsons á bardagakvöldi UFC í blönduðum bardagalistum í Lundúnum næstkomandi laugardag, kveðst spenntur fyrir bardaganum og ætlar sér sigur þrátt fyrir að hafa komið inn með skömmum fyrirvara.

Upphaflega átti Gunnar að mæta Brasilíumanninum Cláudio Silva en hann meiddist og því þurfti UFC að finna nýjan andstæðing. Sato beið á hliðarlínunni og stökk á tækifærið að mæta Gunnari með aðeins tveggja vikna fyrirvara.

„Það var ekkert vandamál að taka bardagann með skömmum fyrirvara. Ég hef æft vel og haldið þyngdinni niðri,“ sagði Sato í samtali við MMA fréttir.

Langt er um liðið síðan bæði Gunnar og Sato kepptu síðast í UFC. Gunnar barðist síðast í lok september 2019, þegar hann laut í lægra haldi fyrir Brasilíumanninum Gilbert Burns. Sato tapaði þá fyrir Bandaríkjamanninum Miguel Baeza í nóvember 2020.

Sato æfir með Burns hjá Sanford MMA í Flórída og kveðst hafa fengið góð ráð frá honum um hvernig best sé að skáka Gunnari.

„Ég fékk góð ráð frá Gilbert. Hann sagði að Gunnar væri með góðan „líkamslás“ og mjög tæknilegur upp við búrið. Hann væri góður alls staðar en að ég ætti að passa mig á að hann tæki ekki bakið og að ég ætti að pressa hann.“

Sato býst fastlega við því að Gunnar muni reyna að ná sér niður í gólfið og klára bardagann þar. Hann er þó hvergi banginn og hyggst sigra Gunnar.

„Gunnar er góður alls staðar en ég held að hann muni reyna að taka mig niður. Hann er með góðan „líkamslás“ en ég er líka góður þar. Ég kem úr júdó og get barist vel í þeirri stöðu.

Hann berst úr karate stöðu sem er líkt minni stöðu. Ég þarf að halda fjarlægð og pressa hann, reyna að rota hann eða klára með uppgjafartaki. Ég ætla að klára hann,“ sagði Sato einnig í samtali við MMA fréttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert