Fámennasta þjóð sögunnar til að vinna gull

Flora Duffy hæstánægð eftir að hafa tryggt sér ólympíugull í …
Flora Duffy hæstánægð eftir að hafa tryggt sér ólympíugull í morgun. AFP

Bermúda varð í morgun fámennasta þjóð sögunnar til þess að vinna ólympíugull á sumarleikum þegar Flora Duffy reyndist hlutskörpust í þríþraut á leikunum í Tókýó.

Eyríkið Bermúda telur aðeins 63.000 íbúa og Duffy, sem kom í mark á tímanum 1:56:36, rúmri mínútu á undan Georgiu Taylor-Brown frá Stóra-Bretlandi og Katie Zaferes frá Bandaríkjunum, kvaðst ákaflega stolt yfir afreki sínu.

„Ég held að allir í Bermúda séu að fara yfir um. Það er það sem gerir þetta svo sérstakt fyrir mig. Já, þetta var draumur minn, en ég vissi líka að hann væri stærri en ég.

Ég er bara stolt yfir því að vera fyrsti gullverðlaunahafi Bermúda [á Ólympíuleikunum] og fyrsti kvenkyns verðlaunahafinn og vonandi hef ég veitt öllum heima innblástur og gert þeim það ljóst að þetta er hægt,“ sagði Duffy í samtali við BBC.

Clarence Hill var eini Bermúdamaðurinn sem hafði unnið medalíu á Ólympíuleikum áður en Duffy gerði það í morgun, en hann hlaut brons í hnefaleikum á leikunum í Montréal í Kanada árið 1976.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert