Shauffele með flottan hring – veðrið setur strik í reikninginn

Xander Schauffele á öðrum hring í dag. Hann lék á …
Xander Schauffele á öðrum hring í dag. Hann lék á 63 höggum. AFP

Xander Schauffele frá Bandaríkjunum lék manna best á öðrum hring golfkeppni karla á Ólympíuleikunum í dag en ekki var hægt að ljúka hringnum vegna veðurs.

Fyrst var keppni stöðvuð þegar þrumur og eldingar gengu yfir svæðið en keppt er í borginni Kawagoe sem er í um þrjátíu kílómetra fjarlægð frá miðborg Tókýó. Vegna úrhellisrigningar var síðan ekki hægt að ljúka hringnum fyrir myrkur en þá áttu sextán keppendur af sextíu eftir að ljúka honum. Þeir voru staddir á fjórtándu til sautjándu holu og halda áfram með morgni þar sem frá var horfið.

Schauffele lék hringinn á 63 höggum, átta undir pari, og er samtals á 11 höggum undir pari eftir tvo hringi. Carlos Ortiz frá Mexíkó er annar á 10 undir pari en síðan koma Mito Pereira frá Síle, Alex Noren frá Svíþjóð, Sepp Straka frá Austurríki og Japaninn Hideki Matsuyama, allir á átta höggum undir pari, en Matsuyama á eftir að leika tvær síðustu holurnar á öðrum hring og gæti því komið sér nær efstu mönnum.

mbl.is