Sló 26 ára heimsmet í þrístökki

Yulimar Rojas sló heimsmetið í þrístökki með stæl.
Yulimar Rojas sló heimsmetið í þrístökki með stæl. AFP

Venesúelabúinn Yulimar Rojas gerði sér lítið fyrir og vann sér inn ólympíugull í þrístökki kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag og setti heimsmet í leiðinni. Rojas var búin að setja ólympíumet í fyrstu tilraun sinni af sex og setti svo heims- og ólympíumet í lokatilraun sinni.

Fyrst stökk hún 15,41 metra og sló þá 13 ára gamalt met Kamerúnans Francoise Mbongo frá leikunum í Peking í Kína árið 2008, sem var 15,39 metrar.

Í sjötta og síðasta stökkinu stökk hún svo 15,67 metra og bætti þannig heimsmet Úkraínukonunnar Inessu Kravets frá árinu 1995 um 0,17 metra, en metið hennar var 15,50 metrar.

Rojas er því handhafi heims- og ólympíumetsins í greininni.

Hin portúgalska Patrícia Mamona vann til silfurverðlauna með því að setja í tvígang landsmet. Í síðara skiptið sem hún gerði það stökk hún 15,01 metra.

Í þriðja sæti var hin spænska Ana Peleteiro, sem stökk 14,87 metra.

mbl.is