Vill stórbæta Íslandsmetið - sleppir setningarathöfninni

Róbert Ísak Jónsson er tvítugur Hafnfirðingur og keppir á sínu …
Róbert Ísak Jónsson er tvítugur Hafnfirðingur og keppir á sínu fyrsta Ólympíumóti. Hann hefur unnið gull á heimsmeistaramóti og silfur á Evrópumóti. Ljósmynd/ÍF

Róbert Ísak Jónsson keppir fyrstur Íslendinganna á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó, Paralympics, þegar hann stingur sér í laugina í 100 metra flugsundi í flokki S14 laust eftir miðnættið í kvöld að íslenskum tíma.

Þá er klukkan reyndar að ganga tíu á miðvikudagsmorgni í Japan og Róbert sagði við mbl.is í Ólympíuþorpinu í Tókýó í gær að þessi tímamismunur hefði einmitt verið dálítið erfiður til að byrja með en hann var ásamt öðrum íslenskum keppendum kominn til Japan strax 15. ágúst og dvaldi við æfingar í Tama í útjaðri höfuðborgarinnar fyrstu sex dagana.

„Já, það var erfitt að vakna til að byrja með og glíma við tímamuninn. Annars gekk þetta allt virkilega vel og það var þægilegt að dvelja í Tama og æfa alla daga. Síðan erum við búin að fara tvisvar í keppnislaugina hérna í Tókýó og hún er frábær, það er ekki hægt að biðja um betri laug. Mig langar strax til að koma hingað aftur,“ sagði Róbert.

Hann kvaðst vera algjörlega tilbúinn í baráttuna í sinni fyrstu grein. „Ég myndi segja að ég væri 110 prósent tilbúinn og ég byrja á minni aðalgrein, 100 metra flugsundinu. Ég þori ekki að svara til um hverjir möguleikarnir eru á að ná ákveðnu sæti eða komast á verðlaunapall því ég veit aldrei hvað hinir keppendurnir gera. En mig langar til að bæta tímann minn og setja nýtt Íslandsmet, helst að stórbæta það. Markmiðið er alltaf að vera betri í dag en í gær," sagði Róbert sem sleppir setningarathöfn leikanna í kvöld til þess að vera sem best hvíldur fyrir keppnina morguninn eftir.

Róbert Ísak Jónsson og Már Gunnarsson ræða málin á æfingu …
Róbert Ísak Jónsson og Már Gunnarsson ræða málin á æfingu í keppnislauginni í Tókýó. Ljósmynd/ÍF

Þarf að bæta metið um sekúndu til að komast í úrslit

Róbert setti núgildandi Íslandsmet í flugsundinu í vor þegar hann komst á verðlaunapallinn á Evrópumótinu en þá synti hann á 58,68 sekúndum. Aðspurður um hve mikið hann þyrfti að bæta metið til að komast áfram í úrslitasundið sagði Róbert að líklega þyrfti hann allavega að bæta það um eina sekúndu.

„Miðað við hversu mikið ég er búinn að æfa og þá tímana sem ég hef náð þá eru miklir möguleikar á að mér takist að bæta það um eina til tvær sekúndur. Ég er klár í slaginn og hef lært af mistökum sem ég hef gert.“

Róbert vann heimsmeistaratitil í greininni í Mexíkó fyrir fjórum árum, þá aðeins 16 ára gamall, en nokkra sterka keppendur vantaði á það mót. Þá hefur hann tvívegis unnið til silfurverðlauna í 100 metra flugsundinu á Evrópumeistaramóti, 2018 og aftur í vor.

„Já, ég er með reynslu af stórum mótum og það hjálpar mér sjálfsagt eitthvað á þessu Ólympíumóti. En aðalmálið er samt að þetta er bara eitt mótið enn, eins og öll önnur. Fyrir mér breytir engu hvar ég er, ég elska fyrst og fremst að keppa. Hérna er keppnin mikið sterkari en áður og meiri hvatning til að standa sig en annars er þetta bara næsta mót,“ svaraði Róbert þegar hann var spurður hvort reynslan frá EM og EM kæmi honum ekki til góða á fyrsta Ólympíumótinu.

Með þrettánda besta tímann

Nítján bestu sundmenn heims í 100 m flugsundi í flokki S14, þroskahamlaðra, eru mættir til leiks í Tókýó. Miðað við tímana sem skráðir eru á þá er Róbert í þrettánda sæti með áðurnefnt Íslandsmet sitt, 58,68 sekúndur, og þarf því að synda virkilega vel til að komast í úrslitasundið.

Breski heimsmethafinn Reece Dunn er þar fremstur í flokki, 25 ára gamall, en heimsmet hans frá 2019 er 54,46 sekúndur. Gabriel Bandeira, 21 árs gamall Brasilíumaður, er fast á hælum hans en hann synti á 54,64 sekúndum í júní á þessu ári.

Róbert kvaðst þekkja flesta mótherjana nokkuð vel. „Já, þetta verða þeir sömu og ég hef verið að mæta undanfarin ár og margir þeirra eru góðir vinir mínir. Brasilíumaðurinn og Bretinn eru bestir, þeir verða erfiðustu andstæðingarnir og eiga langbestu tímana. Þeir verða erfiðir núna, en þeir eru eldri en ég þannig að ég get alltaf unnið þá seinna. Ég hef engar áhyggjur af því,“ sagði Róbert Ísak Jónsson við mbl.is.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað nánar um Róbert og þau Kristín Guðmundsdóttir, Steindór Gunnarsson, Þórður Árni Hjaltested og Jón Björn Ólafsson segja frá honum og meta möguleika hans í Japan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert