Vantaði upp á grimmdina

Aníta Hinriksdóttir kemur í mark í 800 metra hlaupi á …
Aníta Hinriksdóttir kemur í mark í 800 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöllinni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér leið betur núna en á undaförnum æfingum og í undanförnum keppnum sem er jákvætt en það vantaði aðeins upp á grimmdina hjá mér í dag,“ sagði Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttakona í samtali við mbl.is í Laugardalshöllinni í dag en Aníta hafnaði í þriðja sæti í 800 metra hlaupi á tímanum 2:04,88 sem er aðeins frá hennar besta tíma á árinu sem er 2:01,05.

„Ég las hlaupið ekki nægilega vel og það vantaði aðeins upp á ákvarðanatökuna hjá mér að taka fram úr keppinautum mínum á réttum tímapunkti í hlaupinu í dag. Shelayna Oskan-Clarke, sem vann hlaupið í dag, varð önnur á heimsmeistaramótinu í fyrra og ég leit því fyrst og fremst á þetta sem frábært tækifæri fyrir mig sjálfa til þess að bæta mig. Að sama skapi héldum við aðeins aftur af okkur og það þorði engin að taka almennilega af skarið og því fór sem fór.“

Aníta, sem er 23 ára gömul, býr yfir mikilli reynslu sem hlaupari þrátt fyrir ungan aldur en hún segir mikilvægt að núllstilla sig á hverju einasta ári.

Aníta var ekki nægilega grimm í hlaupinu í dag að …
Aníta var ekki nægilega grimm í hlaupinu í dag að eigin sögn. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta snýst aðallega um keppnisreynsluna og það er eitthvað sem maður þarf alltaf að vinna vel í á hverju einasta ári. Stundum snýst þetta líka bara um ákvarðanatöku í hlaupinu sjálfu og maður þarf að þekkja sín takmörk. Stundum hefur maður ekki trú á því að maður geti tekið hraðabreytingar í miðju hlaupi og það er eitthvað sem maður er alltaf að vinna í.“

Það er nóg fram undan hjá þessum öfluga hlaupara sem tekur þátt á Norðurlandamótinu í Bærum í Noregi um næstu helgi.

„Ég tek þátt á Norðurlandamótinu um næstu helgi og það er góður undirbúningur fyrir Evrópumeistaramótið í Glasgow sem fer fram í mars. Markmiðið fyrir þessi mót er fyrst og fremst að hlaupa á meiri hraða og lesa hlaupin betur enda snýst þetta mestmegnis um síðustu 150 metrana í 800 metrunum,“ sagði Aníta Hinriksdóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert