Bensínsláttuvélarnar mögulega út

Sigurður Brynjar Pálsson ásamt Grétu Maríu Grétarsdóttur, formanni dómnefndar, Hrefnu …
Sigurður Brynjar Pálsson ásamt Grétu Maríu Grétarsdóttur, formanni dómnefndar, Hrefnu Ösp Sigfinnsdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo á Íslandi, öðrum í dómnefnd og starfsfólki Byko þegar fyrirtækið tók við viðurkenningunni í Hörpu í gær. Ljósmynd/Creditinfo

Sífellt fleiri fyrirtæki horfa til samfélagsábyrgðar sinnar við mótun rekstrarins. Í ár bauðst þeim fyrirtækjum sem fylla lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki t.d. að svara spurningalista um það með hvaða hætti þau vinna að markmiðum um sjálfbærni í rekstri.

Er stefna Creditinfo að nálgun fyrirtækja á þessi viðfangsefni verði innan tíðar hluti þeirra hlutlægu mælikvarða sem lagðir verða til grundvallar við mat á því í hversu heilbrigðum rekstri fyrirtæki eru.

Síðustu ár hefur Creditinfo heiðrað fyrirtæki sem þykja standa sig framúrskarandi vel á sviði samfélagsábyrgðar og var það niðurstaða dómnefndar að byggingarvörufyrirtækið Byko væri vel að þessum heiðri komið í ár.

Hjá Byko frá aldamótum

Sigurður Brynjar Pálsson er forstjóri Byko og hann settist niður á vettvangi Dagmála og ræddi vegferð fyrirtækisins í þessum efnum. Hann þekkir afar vel til rekstrarins. Var ráðinn til fyrirtækisins um aldamótin, í kjölfar þess að hafa lokið BS-prófi í viðskiptafræði.

Vann hann sig jafnt og þétt upp innan fyrirtækisins og sinnti störfum á mörgum sviðum þess, og raunar á vettvangi fleiri fyrirtækja undir hatti móðurfélagsins Norvikur. En Það var árið 2014 sem hann tók við forstjórastólnum. Áður en að því kom fór samfélagsábyrgðarboltinn að rúlla.

„2011 nefndi ég við fjármálastjórann að við ættum að skoða kolefnisbókhald,“ útskýrir hann en viðurkennir að hvorki hann né aðrir innan fyrirtækisins hafi verið vissir um hvað fólst í raun og veru í hugtakinu.

„Það var ekki fyrr en 2015 sem við fórum að taka þetta í fangið, velta fyrir okkur um hvað þetta snýst og hvað við þurfum að gera. Og 2016 mótum við skýra stefnu og vegferð í þessa átt. Fengum til okkar margt hæfileikaríkt fólk til þess að aðstoða okkur með þetta.“

Bendir hann á að fyrirtækið hafi síðan rutt brautina á ýmsum sviðum. M.a. með fyrsta svansvottaða húsinu sem reist var hér á landi.

„Það var unnið í samstarfi við okkur.“ Eigandi hússins er Finnur Sveinsson, sem var lengi yfirmaður samfélagsábyrgðar hjá Landsbankanum. Finnur var til ráðgjafar um innleiðingu þessara mála á vettvangi Byko.

40% af losun heimsins

Sigurður Brynjar segir mjög mikilvægt fyrir byggingariðnaðinn að leita allra leiða til þess að draga úr umhverfisáhrifum af umsvifum sínum. Fáir átti sig á því að greinin ber ábyrgð á 40% af kolefnisfótspori heimsins. Með því að ná árangri við að draga úr losun á þessu sviði er hægt að hafa marktæk áhrif í loftslagsmálum. Sigurður Brynjar segir það hafa komið sér á óvart þegar hann og samstarfsfólkið fóru að kafa ofan í það hversu margir birgjar fyrirtækisins legðu sitt af mörkum í þessum efnum. Það sé enda orðin útbreidd skoðun að þau fyrirtæki sem dragi lappirnar í umhverfismálum verði einfaldlega undir í samkeppninni. Nú horfi mjög margir til svokallaðrar BREEAM-vistvottunar sem sérstaklega er ætluð nýbyggingum. Byko veiti verktökum ráðgjöf í því skyni að þeir uppfylli þessa vottun.

Hann segir að miklu hafi skipt þegar sveitarfélög tóku að gera kröfu um BREEAM-vottun varðandi nýbyggingar. Þá hafi markaðurinn tekið við sér svo um munaði. Sífellt fleiri séu farnir að veita þjónustu á grundvelli hennar, m.a. arkitektastofur.

Drumboddsstaðir

Byko vinnur eftir skýrum ferlum þar sem samfélagsábyrgðin nær ekki aðeins yfir umhverfismál heldur einnig m.a. starfsmannamál. Þetta tvinnist þó saman. Eigin losun Byko á kolefni sé metin 300 tonn á ári. Fyrirtækið á myndarlegan skóg í landi Drumboddsstaða sem talinn er binda 1.200 tonn af kolefni á ári. Eftir ríflega áratugar hvíld sé stefnan nú sett á að blása lífi í skógræktina á þessu svæði með fulltingi starfsfólks.

Djarfar ákvarðanir

Sigurður Brynjar segir að stórfyrirtæki á borð við Byko þurfi að hugsa út fyrir rammann. Stundum þurfi að taka skref sem þyki of djörf á þeim tíma sem þau eru stigin. Segir hann að það gæti t.d. falist í því að hætta að selja bensínsláttuvélar og beina viðskiptavinum sínum alfarið að rafmagnsvélum. Slík ákvörðun liggi ekki fyrir, en sé dæmi um atriði sem megi gaumgæfa alvarlega.

Í dómnefnd um framúrskarandi samfélagsábyrgð sátu fyrir hönd Creditinfo: Gréta María Grétarsdóttir, formaður, Erla Tryggvadóttir, varaformaður stjórnar Festu og Jón GEir Pétursson sem á sæti í stjórn Festu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Samstarfsaðilar