Greina skip eftir rafspori þeirra á Kyrrahafi

Jón Ingi Björnsson er forstjóri Trackwell sem hlýtur í ár …
Jón Ingi Björnsson er forstjóri Trackwell sem hlýtur í ár hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir framúrskarandi nýsköpun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stór hluti Kyrrahafsins, stærsta hafsvæðis heims, er vaktaður með tækni sem á rætur að rekja til þeirrar nýsköpunar sem íslenska fyrirtækið Trackwell hefur þróað á undanförnum áratugum. Vöktunin miðar að því að koma í veg fyrir rányrkju í hafinu. Trackwell hlaut viðurkenningu fyrir nýsköpun í tengslum við birtingu lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki 2021.

Jón Ingi Björnsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og hann er gestur í Dagmálum á mbl.is í dag. Þar útskýrir hann m.a. hvernig nútímatæknin gerir yfirvöldum kleift að sinna eftirliti á víðfeðmum svæðum á borð við Kyrrahafið.

Viðtalið við Jón Inga má horfa á í opnu streymi með því að smella hér:

Rafspor skipa skoðað

Tæknin byggist m.a. á því að greina mynstur og leggja mat á það hvert hentugast er að beina eftirlitinu á hverjum tíma. Slíkt spari bæði tíma og fjármuni. Notast er við gervitunglamyndir en þá sé einnig notast við tækni sem geti „greint rafspor skipa, hvernig þau geisla frá sér og þá er hægt að finna út úr því hvernig skip þetta eru eða gætu verið“, útskýrir Jón Ingi. Nýsköpun er hjartað í starfsemi Trackwell, jafnvel þótt fyrirtækið hafi nú starfað í aldarfjórðung. Það er afsprengi uppbyggingar hinnar svokölluðu sjálfvirku tilkynningarskyldu sem er eitt mikilvægasta öryggistæki sjófarenda í kringum landið. Trackwell rekur kerfið enn í dag í samstarfi við vaktstöð siglinga, Landhelgisgæsluna og Neyðarlínuna.

„Það hefur verið rauði þráðurinn í öllu því sem við höfum gert að sinna rauntímaskráningu og búa til virði fyrir okkar viðskiptavini úr þeim gögnum sem hún safnar.“ Í dag er þjónustan mun umfangsmeiri en sú sem snýr að rauntímavöktun skipaflotans. Tækninni er beint að eftirliti ýmiskonar, mannauðsstýringu, flotastýringu tækja hjá fyrirtækjum og flutningum svo dæmi sé tekið.

Rekstur fyrirtækisins hefur gengið mjög vel síðustu ár. Þannig námu rekstrartekjur þess 592 milljónum í fyrra og heildarhagnaður stappaði nærri 150 milljónum króna. Jón Ingi viðurkennir að þetta hafi ekki alltaf verið dans á rósum og að árum saman hafi reksturinn verið röngum megin við núllið. Þróunarstarfið hafi hins vegar tekið að bera ávöxt og nú séu viðskiptavinirnir um 800 talsins um heim allan.

Jóni Ingi Björnsson tekur við viðurkenningunni í Hörpu á fimmtudag.
Jóni Ingi Björnsson tekur við viðurkenningunni í Hörpu á fimmtudag. Ljósmynd/Creditinfo

Helmingur tekna að utan

„Við erum að vonast eftir því að helmingur tekna okkar komi frá erlendum aðilum á þessu ári. Það er þannig að stærri hlutinn af hagnaðinum kemur frá erlendum aðilum. Við sjáum langmestu tækifærin á erlendum mörkuðum en einhvers staðar verða menn að eiga heima og ef þú færð gott uppeldi þá er það risaveganesti. Ég held að við höfum fengið frábært uppeldi hjá íslenskum fyrirtækjum sem við erum að nýta erlendis. Það er frábært að hafa fengið þetta aðhald,“ útskýri Jón Ingi.

Hann bendir á að tæknina sem fyrirtækið notar sé auðvelt að skala upp. Þegar rannsóknarkostnaður og fastur kostnaður hefur verið greiddur skipti tekjur frá nýjum viðskiptavinum mjög miklu. Framlegð af slíkum samningum sé mjög mikil. Viðskiptalíkan fyrirtækisins byggist á endurkvæmum tekjum í formi fastra samninga. Nýsköpun og framþróun skipti því miklu máli við að halda í viðskiptavini sem fyrir eru, stækka samninga og búa til tækni sem geri þjónustuna sífellt verðmætari fyrir þá.

Nýsköpun er lífæðin

Hann segir að þetta sé grundvallaratriði í starfseminni. Þótt fyrirtæki hafi starfað lengi á sama sviði, rétt eins og Trackwell, verði þau að sinna nýsköpun af fullu afli. Það sé þeirra leið til að lifa af og standast samkeppni. Fyrirtæki hans sæki fram á erlendum mörkuðum og það hafi lukkast vel, hins vegar sæki erlend samkeppni einnig inn á markaðina hér heima og áskoranirnar því sífellt til staðar.

Trackwell mun áfram verja miklum fjármunum í nýsköpun að sögn Jóns Inga. Hins vegar verði hlutfall þess kostnaðar ekki eins stórt þegar tækjurnar hafa vaxið mikið. Oft á tíðum hafi verulegur hluti tekna fyrirtækisins runnið til þeirra mála.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Samstarfsaðilar