482 Tryggja ehf.

Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 206
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Fjármála- og vátryggingastarfsemi
Starfsemi Áhættu- og tjónamat
Framkvæmdastjóri Smári Ríkarðsson
Fyrri ár á listanum 2021–2022
Framúrskarandi 2023

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 414.813
Skuldir 264.785
Eigið fé 150.028
Eiginfjárhlutfall 36,2%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 3
Endanlegir eigendur 2
Eignarhlutur í öðrum félögum 1
Endanleg eign í öðrum félögum 1

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Starfsemi tengd vátryggingum og lífeyrissjóðum

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Tryggja hefur náð að tryggja góðan árangur

Morgunblaðið/Eggert

„Með natni og viljann að verki hefur okkur tekist að búa til fyrirtæki sem stendur í lappirnar og stundar sín viðskipti í anda vátryggingamiðlara Evrópu,“ segir Smári Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Tryggja ehf.

Tryggja er elsta vátryggingamiðlun landsins og velti um 600 milljónum á síðasta ári en eigendur félagsins eru þeir Smári Ríkarðsson framkvæmdastjóri og Baldvin Samúelsson stjórnarformaður.

Starfsemi Tryggja felst aðallega í að aðstoða fyrirtæki og sveitarfélög með vátryggingar af ýmsu tagi.

„Við erum ótrúlega þakklátir fyrir starfsfólkið okkar og ekki síður viðskiptavini sem hafa treyst á okkur í gegnum árin,“ segir Baldvin. „Tryggja er nú þriðja árið í röð veitt viðurkenning fyrir að vera framúrskarandi og við teljum þá viðurkenningu mikilvæga því tryggingar snúast um traust.“

Áhersla á skaðatryggingar

„Þarfir viðskiptavina eru alltaf hafðar í fyrirrúmi hjá Tryggja. Okkur er alveg sama hvaðan tryggingin kemur eða hvort hún er erlend eða ekki. Þær lausnir sem viðskiptavinurinn leitar eftir er það sem skiptir mestu máli,“ útskýrir Smári og segir að birgjar sem Tryggja á í samstarfi við séu af öllum stærðargráðum og komi víðs vegar að utan úr heimi.

Vátryggingamiðlunin Tryggja var stofnuð árið 1995. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og verkefni Tryggja tekið breytingum með tíð og tíma.

„Starfsemin eins og hún er í dag fer ekki í gang fyrr en upp úr hruninu. Við leggjum áherslu á skaðatryggingar og flóknari lausnir fyrir fyrirtæki og þá sérstaklega þegar kemur að erlendum áhættum og/eða ef erlendir aðilar hafa verið að koma til Íslands og vantar upplýsingar um meðhöndlun vátryggingaþjónustu hér á landi. Auk þess erum við með slysa- og sjúkratryggingar fyrir einstaklinga sem gefnar eru út af Tryggja eða vátryggðar hjá Lloyd’s.“

Hluti af Lloyd’s-fjölskyldunni

Tryggja fék stöðu „cover holder“ í janúar 2018 og hefur síðan þá getað boðið viðskiptavinum sínum upp á fleiri möguleika þegar litið er til vátrygginga og sérhæfðrar áhættu.

„Það að vera hluti af þessu regluverki hefur ýtt úr vör viðskiptasamböndum sem annars hefðu ekki orðið. Lloyd’s-vátryggingamarkaður er ekki eins opinn þeim sem ekki hafa sömu stöðu og Tryggja. Það er að segja að geta stundað viðskipti við markaðinn, gefið út vátryggingar og meðhöndlað öll samskipti eins og að skrifa upp á skilmála og meðhöndla tjón viðskiptavina,“ útskýrir Smári.

„Með þessu má segja að dagleg starfsemi sé ekki svo ólík því sem hefðbundin tryggingafélög stunda, þrátt fyrir að við séum hluti af Lloyd’s-fjölskyldunni. Munurinn liggur helst í fjárhagslegum skilyrðum og utanumhaldi á regluverki,“ bætir Baldvin við.

„Okkar kúnnar geta leitað til okkar þó þeir þurfi tryggingar í öðru landi. Sem dæmi þá þjónustum við mörg félög sem hafa starfsemi erlendis þar sem íslenskir skilmálar duga ekki. Það er ómetanlegt að stjórnendur þessara félaga hafa kosið að treysta okkur fyrir því að vera hluti af varnarlínu þeirra. Kjörstaða okkar er sú að við tölum tungumál tryggingafræðanna og höfum áratuga reynslu í faginu,“ segir Smári.

Menningarmunur stundum til fyrirstöðu

„Síðan erum við líka að vinna fyrir erlend félög sem hafa aðsetur á Íslandi með alþjóðlegar tryggingar. Þá vinnum við með sem milliaðili eða sérfræðingur í ferlinu, sem auðveldar viðskiptin,“ segir Baldvin og bendir á að Tryggja sé í miklu samstarfi við alþjóðlegu vátryggingamiðlunina Marsh & McLennan sem er sú stærsta á sínu sviði á heimsvísu.

„Við sjáum um öll þeirra vandamál sem upp koma á Íslandi með því að finna vátryggingar sem leitað er eftir hér, skaffa þær, staðfæra og sýna fram á að þær séu samkvæmt því sem þeir óska eftir,“ segir Smári.

„Vandamálið þarna er að það er oft svo mikill menningarmunur. Sérstaklega á milli Ameríku og Íslands. Það vantar oft mikið upp á skilning á milli landa.

„Til dæmis ef bandarískt félag er að setja upp starfsemi á Íslandi og er með allar vátryggingar á hreinu en félagið ætlar svo að ráða íslenska starfsmenn inn í verkefnið þá eiga þeir stundum erfitt með að skilja hvers vegna þeir þurfa að kaupa sjúkratryggingu fyrir starfsfólkið. Mörgum er fyrirmunað að fatta að starfsfólkið er sjúkratryggt fyrir það eitt að vera Íslendingar,“ lýsir hann en segir að að sama skapi geti dæmið snúist við ef íslenskt félag stofnar til starfsemi í Bandaríkjunum.

Nýtt líftryggingafélag og tryggingakerfi líta dagsins ljós

Tryggja hefur staðið að þróun á nýju tryggingakerfi sem tæknilausn við utanumhald á vátryggingarekstri en verkefnið nær mörg ár aftur í tímann og hefur verið í stöðugri framþróun. Innleiðing kerfisins er nú þegar hafin og segjast þeir Baldvin og Smári stoltir af því að sjá ávöxt erfiðisins.

„Samhliða almennri starfsemi Tryggja höfum við verið að þróa skýjalausn sem við köllum Tryggvi. Kerfið er algerlega byggt frá grunni af okkar fólki og það mætir þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra kerfa í dag. Það sér um stoðkerfin fjögur sem eru útgáfa og tölfræði, áhættumat og skýrsluskil og innheimta og tjónaumsýsla. Við höfum nýtt okkur kerfið í eigin rekstri og höfum einnig selt notkunarrétt á því til þriðja aðila. Þá eru einnig nokkrir miðlarar hjá Lloyd’s að nýta hluta af því í ýmis verkefni sem við tengjumst,“ segir Smári.

Hingað til hefur Tryggja ekki boðið upp á líftryggingar en að sögn Baldvins og Smára eru mörg teikn á lofti þar sem nýtt líftryggingafélag mun brátt líta dagsins ljós.

„Við erum ekki með líftryggingar í dag þar sem Lloyd’s-markaðurinn hætti að geta boðið upp á slíkar tryggingar innan Evrópu eftir Brexit. Í ljósi þess og þar sem Tryggja hefur verðmætan stofn viðskiptamanna þá hafa nokkrir úr okkar hópi ásamt fjárfestum farið í þá vegferð að stofna líftryggingafélag,“ segir Baldvin sem hefur leitt uppbyggingu nýs félags sem vonir standa til að muni hefja starfsemi nú á haustmánuðum.

„Hið nýja félag er í raun íslenskt hugvit. Öflugt, ófeimið og ögrandi fyrir markaðinn og allt byggt á sterkum og sjálfbærum grunni þar sem Tryggja mun gegna lykilhlutverki sem vinnsluaðili líftryggingafélagsins,“ segja þeir Baldvin og Smári og óhætt að segja að framtíðin sé björt hjá fyrirtækinu. asthildur@mbl.is

Morgunblaðið/Eggert
mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar