"Við erum með lögfræðiálit um að það sé ekkert óheimilt við að leggja fram fjármuni til fjármögnunar. Það er ekkert sem bannar fjármögnun á hlutafé eða stofnfé. Við sjáum slíkt gerast í viðskiptalífinu á hverjum degi. Það koma saman menn á hverjum degi til að eiga viðskipti og þá þarf alltaf að fjármagna hluti," sagði Stefán.
Hann sagðist aðspurður ekki óttast rannsókn Fjármálaeftirlitsins eða lögreglu á hlut A. Holding í þessu máli. Hann tók jafnframt fram að forsvarsmenn A. Holding hefðu ekki verið kallaðir til skýrslutöku hvorki hjá Fjármálaeftirlitinu né lögreglu vegna þessa máls og félagið hefði ekki fengið tilkynningu um að það væri grunað um lögbrot.
Jón Auðunn sagði að á fundinum hefði verið farið yfir skyldur stjórnarmanna. Rannsókn Fjármálaeftirlitsins hefði lítið verið rædd, enda lægju engin erindi fyrir stjórninni varðandi það mál.
"Við ræddum hins vegar að svo virðist sem bréf sem voru skrifuð til stjórnar Sparisjóðs Hafnarfjarðar séu komin í hendur á blaðamanni. Okkur finnst það vera mjög óþægilegt. Og það sem meira er virðast fundargerðir stjórnar sparisjóðsins vera komnar út í bæ, en þar er verið að fjalla hin ýmsu mál. Þetta er auðvitað mjög óheppilegt. Við munum snúa okkur til Fjármálaeftirlitsins með það mál," sagði Jón Auðunn.
Hann sagði að stjórn SPH hefði ekki markað neina stefnu varðandi breytingu á starfsemi sjóðsins. Stjórnin væri opin fyrir því að gera breytingar. "Það eina sem ég sé fyrir mér er að sameina Sparisjóð Hafnarfjarðar einhverjum öðrum sparisjóði, en það hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum."