Davíð: Höfum ekki efni á að tapa í baráttunni við verðbólguna

Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á fundi VI í ...
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á fundi VI í morgun mbl.is/Golli
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sagði á morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands í dag, að ákvörðun um hækkun stýrivaxta virtist hafa komið mörgum á óvart og væntanlega fæstum þægilega á óvart.

Davíð sagði, að fjölmörg viðvörunarmerki hafi verið gefin út að undanförnu um að þannig myndi fara. Þetta hafi verið undirstrikað við tvær síðustu vaxtaákvarðanir þrátt fyrir að við vaxtaákvörðun í september hefði mátt greina, að bankinn vonaðist til að úr rættist, til að mynda vegna þeirrar truflunar sem varð á fjármálamörkuðum vegna óöruggra fasteignalána í Bandaríkjunum.

Davíð sagði á fundinum, að ef Seðlabankinn hefði ekki aðhafst nú hefði mátt með réttu saka hann um sinnuleysi eða jafnvel kjarkleysi. Í landhelgisstríðum hefðu fyrst verið notuð púðurskot áður en alvöru skot voru sett í. Fallbyssurnar sem notaðar voru hefðu svo sem ekki verið nein gereyðingarvopn en Íslendingar urðu að sigra.

Að sögn Davíðs hafa Íslendingar ekki efni á að tapa baráttunni við verðbólguna og verði að taka slaginn hversu kostnaðarsamur sem hann sé til skemmri tíma. Davíð sagði, að gagnrýnendur vaxtastefnu Seðlabanka Íslands hafi iðulega á orðim að þau tæki sem seðlabankar noti, dugi ekki hér á landi. Meðal annars vegna þess hve lítill gjaldmiðill krónan er. Því færi hins vegar fjarri, að stóru gjaldmiðlarnir, til að mynda evran, hafi verið lausir við sveiflur á undanförnu. „Sveiflur krónunnar eru til merkis að hún er virk. Hún virkar eins og aðrir gjaldmiðlar. Ef hún sýndi ekki þessi viðbrögð þá væri ástæða til að kvarta," sagði Davíð Oddsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir