Spá óbreyttum stýrivöxtum út árið

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Greining Glitnis hefur breytt stýrivaxtaspá sinni og telur greiningardeildin nú að stýrivextir Seðlabanka Íslands verði óbreyttir út árið eða 15,5%. Í stýrivaxtaspá greiningar Glitnis frá því 23. júlí var því spáð að bankastjórn Seðlabankans myndi lækka stýrivexti úr 15,5% í 15,0% samhliða birtingu nýrrar þjóðhags- og verðbólguspár í nóvemberbyrjun.

„Nýlegar hagtölur benda til hægari kólnunar fasteignamarkaðar á sumarmánuðum og heldur meiri spennu á vinnumarkaði en við reiknuðum með. Væntingar neytenda til efnahagsástandsins eftir 6 mánuði jukust í ágúst samkvæmt væntingavísitölu Gallup, og bendir það til að neytendur vænti þess að betri tíð sé í vændum á nýju ári, þótt enn gæti mikillar svartsýni í sögulegu samhengi.

Þá hefur gengisþróun undanfarið verið óhagstæðari en bankinn reiknaði með. Verðbólguhorfur það sem eftir lifir árs eru því dekkri Seðlabankinn gerði ráð fyrir í síðustu verðbólgu- og þjóðhagsspá sem birt var 3. júlí síðastliðinn," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

Stýrivextir lækki á fyrsta ársfjórðungi 2009

Greining Glitnis reiknar nú með að stýrivöxtum Seðlabankans verði haldið óbreyttum í 15,5% á næstu tveimur skipulögðu vaxtaákvörðunardögum bankans 11. september og 6. nóvember næstkomandi.

„Þá spáum við því að bankinn hefji lækkunarferli vaxta sinna á 1. fjórðungi næsta árs þegar verðbólgan er á undanhaldi og skýrari merki verða komin fram um farið sé að hægja á vexti innlendrar eftirspurnar.

Hins vegar er ekki hægt að útiloka að vextir verði lækkaðir fyrr, sér í lagi ef verðbólguþróun næstu mánaða reynist hagstæðari en spá okkar gerir ráð fyrir og landsframleiðslutölur þær sem Hagstofan birtir um miðjan september benda til verulegs samdráttar í innlendri eftirspurn það sem af er ári.

Hér verður einnig að hafa í huga að þótt undanfarin verðbólga sé veruleg getur raunvaxtastig hækkað hratt ef lítil verðlagshækkun er í pípunum. Auk heldur má færa fyrir því rök að áhrifamáttur hárra innlendra stýrivaxta sé nú meiri en raunin var fram á 1. fjórðung þessa árs þar sem aðgangur heimila og fyrirtækja að nýju erlendu lánsfé er nú afar takmarkaður og ekki horfur á verulegum breytingum í þeim efnum á næstunni.

Við reiknum með nokkuð bröttu lækkunarferli vaxta og spáum því að stýrivextir verði komnir í 9,5% í lok næsta árs og 7,5% um mitt árið 2010. Áður höfðum við spáð því að vextir yrðu 9% í árslok 2009 og 7% um mitt ár 2010."

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK