Geta treyst styrk Glitnis áfram

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á blaðamannafundi í stjórnarrráðinu í dag.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, á blaðamannafundi í stjórnarrráðinu í dag. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að teknar hafi verið mikilvægar ákvarðanir sem varða fjármálaheiminn á Íslandi. Glitnir hafi leitað til stjórnvalda og niðurstaðan orðið sú að ríkið leggur bankanum til hlutafé til að tryggja að bankinn geti starfað áfram. Geir sagði að viðskiptavinir og starfsmenn geti treyst því að bankinn sé traustur og öflugur líkt og áður.

Geir sagði á fundi með blaðamönnum í Stjórnarráðinu, að það væru fyrst og fremst hluthafar Glitnis, sem yrðu fyrir tjóni. Erlendis hafi hluthafar fjármálastofnana tapað öllu sínu í aðgerðum sem þessum. Hér verði því öðruvísi farið þótt hluthafar tapi miklu.

Geir segir að ríkið hafi brugðist við með mjög afgerandi hætti til þess að afstýra frekara tjóni og því að Glitnir lenti í þroti. Innistæðueigendur í öðrum bönkum á Íslandi þurfi ekki að óttast um fjármuni sína og áhersla væri lögð á, að fjármálalífið geti starfað áfram óhindrað. Tíminn verði að leiða í ljós hvort um uppstokkun eða sameiningar í fjármálalífinu verði síðar en Geir sagði, að íslensk stjórnvöld vildu gjarnan sjá frekari hagræðingu á íslenskum bankamarkaði. Þá hefði verið heppilegra ef bankarnir hefðu fjármagnað sig á breiðari grundvelli, til að mynda með innlánum.

Forsætisráðherra sagði, að sú staða, sem upp var komin varðandi Glitni,  sé dæmi um hversu fjármálakerfi heimsins séu nátengd, ekki sé við stjórnendur eða starfsmenn Glitnis að sakast. Ríkið hafi miklum skyldum að gegna og mikilvægt að ganga þannig frá málum að sem minnst óvissa ríki um bankana. Þess vegna hefði verið ákveðið að fara þessa leið.

Hvorki lán né styrkir

Geir segist ekki vita hvort yfirtökuskylda myndist vegna kaupa ríkisins á 75% hlut í Glitni. Hann sagðist vera mjög ósáttur við að þurfa að taka 84 milljarða króna af almannafé til þess að kaupa hlut í Glitni. Það hafi hins vegar verið það eina rétta í stöðunni og það hafi orðið að gera eitthvað áður en markaðir voru opnaðir í morgun.

Aðalatriðið  sé að fjármálastöðugleikanum sé  ekki ógnað. Geir segist gera ráð fyrir því að viðskipti með bréf Glitni hefjist í Kauphöll Íslands á ný síðar í dag. Hvað varðar stöðu krónunnar sagði forsætisráðherra, að gengið sé orðið allt of lágt en það eigi eftir að styrkjast eftir að þessar breytingar hafa verið kynntar.
 
Hann sagði þetta vissulega vera mikla peninga, sem lagðir séu fram af almannafé en hvorki væri um að ræða lán né styrki. Ef vel gangi og engin ástæða sé til að ætla annað, muni ríkissjóður losa sig við sinn hlut í Glitni. Aðspurður sagði hann að þetta sýni ekki fram á að einkavæðing bankanna á sínum tíma hafi verið röng. Þetta hefði getað komið fyrir einkabanka eða ríkisbanka.

Geir segir stjórnvöld telja, að lagaheimildir Seðlabankans séu nægar til þess að ganga frá þessum hlutafjárkaupum. Síðar á komandi þingi verði aflað frekari lagaheimilda ef það gerist þörf á. „Við erum að komast yfir ákveðinn brimskafl sem er óvanalegur hér á Íslandi," sagði Geir.

Ekki þjóðnýting

Geir segist ekki vilja nota orðið þjóðnýtingu um Glitni þar sem ríkið sé að leggja bankanum til nýtt hlutafé. Um ástæður þess, að Glitnir lenti skyndilega í miklum lausafjárvandræðum, sagði Geir, að bankinn hefði misst ákveðnar lánalínur og fleiri atriði hafi komið til sem höfðu meiri áhrif á Glitni en aðra banka. Sagðist Geir gerir ráð fyrir því að sagt hafi verið upp ákveðnum lánamöguleikum líkt og fleiri bankar hafa lent í á síðustu tveimur vikum í kjölfar gjaldþrots bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers. Hann sagðist síðan ekki vilja fara nánar út í innri mál Glitnis við blaðamenn.

Forsætisráðherra segist hafa staðið í þeirri trú að Glitnir væri vel fjármagnaður og í sömu trú hefði Lárus Welding, forstjóri Glitnis, staðið. Geir sagði að eftir því sem hann vissi best standi hinir bankarnir ekki frammi fyrir svipuðum vanda en hann hafi rætt við forsvarsmenn þeirra um helgina. „Ég talaði við þá en það var ekkert sem benti til þess að þeir væru að fara í þrot," sagði Geir.

Að sögn Geirs verður ekki dregið úr opinberum framkvæmdum þrátt fyrir að ríkið leggi 84 milljarða króna í Glitni nú. Þá sagðist Geir telja að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé samþykkur þessum ákvörðunum en þingflokksfundur verður haldinn síðar í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK