Bresk nefnd aftur til Íslands

Breskir og íslenskir embættismenn í íslenska utanríkisráðuneytinu fyrir rúmri viku.
Breskir og íslenskir embættismenn í íslenska utanríkisráðuneytinu fyrir rúmri viku. mbl.is/Kristinn

Von er á sendinefnd breskra embættismanna aftur til Íslands til að ganga frá samkomulagi milli breskra og íslenskra stjórnvalda um það hvernig gengið verði frá greiðslum til eigenda innlána á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi. 

Í yfirlýsingu frá breska fjármálaráðuneytinu segir, að eftir viðræður milli Geirs H. Haarde, forsætisráðherra Íslands, og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hafi verið ákveðið að embættismenn frá fjármálaráðuneytinu og Englandsbanka fari til Íslands til að ljúka gerð samkomulags, sem miðar að því að bæta sparifjáreigendum í Bretlandi tjón sitt og tryggja að lánardrottnar sæti sanngjarnri meðferð.

Ekki kemur fram hvenær embættismennirnir koma. Bresk nefnd kom til Íslands 10. október og átti daginn eftir viðræður við íslenska sérfræðinga. Eftir fundinn var gefin út yfirlýsing um að verulegur árangur hefði náðst um meginatriði fyrirkomulags sem miði að því að flýta fyrir greiðslum til sparifjáreigenda í Icesave. 

Englandsbanki tilkynnti í síðustu viku, að Landsbankinn fengi allt að 100 milljóna punda lán til að auðvelda endurgreiðslur til sparifjáreigenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK