Skulduðu Þjóðverjum milljarða

Höfuðstöðvar Deutsche Bank.
Höfuðstöðvar Deutsche Bank. AP

Ætla má að þýska fjármálakerfið verði fyrir umtalsverðum skaða í kjölfarið á þroti íslensku bankanna. Þýskir bankar voru lánardrottnar að baki tæplega þriðjungi af erlendum skuldum íslenskra banka og annarra hérlendra fyrirtækja um mitt ár. Í Morgunkorni Glitnis segir að alls hafi kröfur þeirra á hendur íslenskum skuldurum numið ríflega 21 milljörðum Bandaríkjadollara, sem samsvarar rétt um 2.500 milljörðum króna miðað við skráð gengi Seðlabanka í gær.

Alþjóða greiðslubankinn (BIS) í Sviss birti í morgun tölur um skuldir og kröfur innan hins alþjóðlega fjármálakerfis. Kemur þar fram að erlendar kröfur á íslensk fyrirtæki námu alls ríflega 75 milljörðum Bandaríkjadollara um mitt ár. 

„Alls námu kröfur evrópskra banka á hérlend fyrirtæki í júnílok 42,6 milljörðum Bandaríkjadollara. Þetta samsvarar ríflega 56% af öllum erlendum skuldum íslenskra fyrirtækja á þeim tíma. Þýskaland sker sig úr hvað þetta varðar, en kröfur breskra banka námu 4,2 milljörðum dollara, kröfur franskra banka námu 2,9 milljörðum dollara og kröfur belgískra banka 2,7 milljörðum dollara, svo nokkuð sé nefnt.

Í því ljósi, og með hliðsjón af því hversu víðtækar björgunaraðgerðir ríki Evrópu hafa ráðist í til að verja fjármálakerfi sín falli, má velta fyrir sér hvort ekki hafi verið sparaður aurinn og krónunni hent þegar evrópskir seðlabankar ákváðu að veita ekki Seðlabanka Íslands lánafyrirgreiðslu til þess að styðja við bakið á hérlendu fjármálakerfi. Í öllu falli virðast þær upphæðir sem hér um ræðir, og líklega munu tapast að miklu leyti, talsvert stærri en þær fjárhæðir sem rætt var um þegar Seðlabankinn leitaði á náðir systurbanka sinna í Evrópu varðandi aðstoð fyrr á árinu. Við það bætast svo þau neikvæðu áhrif sem fréttir af bankaáfallinu á Íslandi hafa haft á alþjóðlega fjármálamarkaði, einnig þá sem ekki bera mikinn beinan skaða af áfallinu hér á landi,“ segir í Morgunkorninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK