Slaknað á peningalegu aðhaldi

Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, ásamt Þórarni G. Péturssyni, aðalhagfræðingi bankans.
Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, ásamt Þórarni G. Péturssyni, aðalhagfræðingi bankans. mbl.is/Golli

Peningastefnunefnd Seðlabankans er enn þeirrar skoðunar að samspil efnahagsaðgerða færist í átt til aukins aðhalds í fjármálum hins opinbera og slökunar peningalegs aðhalds. Eftir því sem fleiri aðgerðir koma til framkvæmda af hálfu stjórnvalda muni peningastefnunefnd meta áhrif þeirra.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar um stýrivaxtaákvörðun nefndarinnar í dag.  Þar hins vegar ekki fjallað um hvort vænta megi frekari lækkunar stýrivaxta á næstunni. Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, sagði hins vegar á blaðamannafundi að nefndin þurfi að sjá frekari vísbendingar um aukið aðhald hins opinbera áður en frekari ákvarðanir verði teknar í peningamálum.

Í yfirlýsingunni segir að markaðsvextir hafi lækkað umtalsvert frá maíbyrjun. Þannig hafi skammtímavextir lækkað um u.þ.b. 4 prósentur og raun- og nafnvextir langtímaskuldabréfa um 0,5 og 1,5 prósentur. Fyrir vikið hafi ávöxtunarferillinn orðið flatari en áður, sem hvetur fjárfesta til þess að auka hlutdeild langtímaskuldabréfa í eignasöfnum. Innlánsvextir hafi einnig lækkað umtalsvert.

Þá kemur fram, að fyrstu aðhaldsaðgerðir í fjármálum hins opinbera hafi þegar verið samþykktar á Alþingi. Eftir því sem fleiri aðgerðir komi til framkvæmda muni peningastefnunefndin meta áhrif þeirra og afleiðingar fyrir mótun stefnunnar í peningamálum.

„Nefndin telur að ákvarðanir um aðhaldsaðgerðir sem koma til framvæmda í ár og skýr skuldbinding stjórnvalda um aðhaldsaðgerðir á árunum 2010-2012 séu grundvöllur þess að endurheimta traust markaðarins og skapa þannig svigrúm til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds," segir í yfirlýsingunni.

Nefndin segir, að gengi krónunnar hafi verið lágt undanfarið og þótt umtalsverður afgangur á vöru- og þjónustuviðskipum við útlönd styðji við krónuna virðist afgangurinn á fyrsta fjórðungi ársins hafa verið minni en vænst var vegna halla á þjónustuviðskiptum og umtalsverðrar verðlækkunar útflutnings. Þá hafi vöruskiptaafgangur í apríl einnig verið fremur lítill.

Þá kemur fram, að Seðlabankinn hafi beitt inngripum á gjaldeyrismarkaði til þess að styðja við gengi krónunnar. Eigi að síður hafi hreinn gjaldeyrisforði bankans aukist nokkuð sl. ársfjórðung.

„Þótt samdráttur eftirspurnar og aukið atvinnuleysi hafi dregið úr verðbólguþrýstingi, gætir enn töluverðra gengisáhrifa í hækkun vísitölu neysluverðs. Þau skýra 1,1% hækkun hennar í maí að mestu leyti. Tímabundin hækkun húsnæðisliðar vísitölunnar stuðlaði einnig að hækkun hennar. Tólf mánaða veðbólga minnkaði úr 11,9% í apríl í 11,6% í maí. Haldist gengi krónunnar og nafnlaun stöðug, er þess að vænta að verðbólgan hjaðni svipað og spáð var maí og verði nálægt 2,5% markmiðinu í byrjun næsta árs," segir í yfirlýsingunni.

Yfirlýsing peningastefnunefndar

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir