Gengi krónunnar styrkist

mbl.is/Júlíus

Gengi krónunnar hefur styrkst umtalsvert frá því í gær. Gengisvísitalan hefur þannig lækkað um 3% frá því í gærmorgun, þar af um 1,2% í dag. Gengi evru er nú um 180 krónur, gengi dals um 125 krónur.

Fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka, að Seðlabankinn hafi gefið tóninn bæði í gær og í morgun með inngripum á markaði en líklegt sé að frekari gjaldeyrissala á markaði eigi einnig þátt í svo ríflegri styrkingu krónunnar.

Íslandsbanki segir, að ekki sé hægt að útiloka að tilkoma nýs manns til starfa í brú Seðlabankans eigi einhvern þátt í auknum umsvifum hans á gjaldeyrismarkaði nú. Már Guðmundsson, nýr seðlabankastjóri, hafi nýlega viðrað í fjölmiðlum þá skoðun sína að virkari þátttaka Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undanfarin ár hefði verið heppileg, og að skynsamlegt gæti verið fyrir bankann að beita gjaldeyrisforðanum sem eins konar sveiflujafnara fyrir gengi krónu með umfangsmiklum gjaldeyriskaupum á hágengistímum og tilsvarandi sölu þegar gengið stæði veikt.

Fram kemur í Morgunkorni, að gengisþróun krónunnar hafi verið önnur á svonefndum aflandsmarkaði en á millibankamarkaði hér á landi. Þannig hafi gengi evru lækkað á aflandsmarkaði eftir miðjan ágústmánuð úr 220 krónum í 212,5 krónur á sama tíma og gengið á millibankamarkaði hækkaði úr 181 krónur í 184 krónur. Með því minnkaði munur hérlends gengis og aflandsgengis úr 22% í 15,5% á tímabilinu.

Ekki verður hins vegar séð að viðskipti hafi átt sér stað í kerfi Reuters frá því krónan fór að styrkjast að nýju hér á landi í gærmorgun og hefur munur innlends gengis og aflandsgengis aukist að nýju miðað við það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir