Dregur úr svartsýni neytenda

Heldur hefur dregið úr svartsýni íslenskra neytenda á nýju ári ef marka mál væntingavísitalu Gallup, sem birt var í morgun. Vísitalan hækkaði um 3,1 stig milli desember og janúar og er nú 37,1 stig. Fleiri eru þó neikvæðir en jákvæðir á á stöðu og horfur í efnahagslífinu þegar vísitalan mælist undir 100 stigum.

Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka, að þótt svartsýni um efnahags- og atvinnuástandið sé nokkuð ríkjandi meðal íslenskra neytenda þá sé gildi Væntingavísitölunnar nú töluvert hærra en það var á sama tíma fyrir ári og aðeins hærra en það hafi að jafnaði verið frá hruni bankanna.

Í janúar í fyrra mældist vísitalan 19,5 stig sem er lægsta gildi hennar frá upphafi en frá hruni bankanna hefur hún að meðaltali verið um 33 stig. Segir Greining Íslandsbanka því ljóst, að íslenskir neytendur telji ástandið nú ekki jafn slæmt og fyrir ári og ekki eins svart og það hafi að jafnaði verið frá hruni bankanna.

Undirvísitölur hækka

Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar hækkuðu á milli desember og janúar og segir Íslandsbanki það bendi til þess að væntingar neytenda til núverandi ástands í efnahags og atvinnumálum jafnt og ástandsins eftir sex mánuði séu aðeins meiri nú en fyrir mánuði.

Mat á núverandi ástandi hækkar um ríflega 2 stig og mælist 8,6 stig en væntingar til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði hækka um tæp 4 stig og mælast nú 56,1 stig. Rúmlega 78% svarenda telja að efnahagsástandið sé slæmt um þessar mundir og rúm 54% þeirra telur að atvinnumöguleikar séu litlir. Þá telja um 44% svarenda að efnahagsástandið verði verra eftir 6 mánuði og um 31% að atvinnumöguleikarnir verði minni eftir þann tíma. Einnig telja rúm 39% svarenda að heildartekjur þeirra muni lækka á næstu sex mánuðum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK