Bólueinkenni á skuldabréfamarkaði

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Ómar Óskarsson

Það er margt sem bendir til þess að markaðurinn hafi í einhverjum mæli misskilið yfirlýsingu peningastefnunefndar í ágúst, að sögn Más Guðmundssonar, Seðlabankastjóra. Á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í dag sagði hann að af hruninu í september þurfi að læra og reyna að gera betur.

„Ýmsir virðast hafa talið á grundvelli yfirlýsingarinnar að áform um afnám hafta hafi verið slegin af um hríð, jafnvel um einhver ár, og af þeim sökum hafi vextir verið lækkaðir svo mikið sem raun varð. Í mínum huga hins vegar tengist vaxtalækkunin þá miklu frekar lækkun verðbólgunnar en aukinni óvissu um afnám haftanna sem þó var vissulega staðreynd. Þessi yfirlýsing var gefin áður en seinni dómur Hæstaréttar féll um gengistryggð lán og þriðja endurskoðunin hjá AGS komst í höfn. Það breytist síðan með jákvæðum hætti fyrir septemberfund peningastefnunefndar og því varð innihald yfirlýsingarinnar annað en í ágúst hvað varðar skilyrðin fyrir afnámi hafta.“ Segir Már að það hafi hins vegar verið aðstæðurnar sem hafi breyst, en ekki stefna Seðlabankans.

Fleiri þættir en bara misskilningur

Sagði hann að þróun ávöxtunarkröfu á ríkisverðbréfum í ágúst og september hafi haft á sér ásýnd bólu. „Það er því líklegt að fleiri þættir hafi verið að verki en misskilningur varðandi yfirlýsingar peningastefnunefndar. Þar gæti verið um að ræða óvenjumiklar skuldsettar stöður, skipulag og virkni markaðarins og svo hefðbundin bóluhegðun þar sem taugarnar eru þandar til hins ítrasta rétt áður en bólan springur. Seðlabankinn mun fyrir sitt leyti rannsaka það sem þarna gerðist og draga af því viðeigandi lærdóma.“ Már sagði hins vegar að það gæti verið gagnlegt við fleiri að gera slíkt hið sama.

„Í öllu falli er ljóst að vilji markaðsaðilar taka skuldsett veðmál um að höftin verði hér svo árum skiptir þá er þeim það frjálst. En þeir gera það á eigin ábyrgð. Afnám haftanna á vissulega töluvert lengra í land en kannski ýmsir töldu í haust en áralangur frestur er ekki í samræmi við þau áform sem lýst hefur verið,“ sagði Már á fundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK