Margt líkt með Íslandi og Írlandi

Fjármálaráðuneyti Írlands
Fjármálaráðuneyti Írlands Reuters

Margt er líkt með aðdraganda erfiðleika Íslands og Írlands, en viðbrögð stjórnvalda við áfallinu - og þá sér í lagi erfiðleikum bankanna - hafa verið um margt ólík, segir í vefriti efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

Tvíburakreppa hér en bankakreppa á Írlandi

Sama dag og íslenska ríkið yfirtók Glitni, 29. september 2008, tilkynnti fjármálaráðherra Írlands, Brian Lenihan, um það sem hann kallaði ódýrustu björgunaraðgerð banka í sögunni. Nú tveimur árum síðar er ljóst að björgunin verður dýrari en nokkur bjóst við, segir í vefritinu.

„Verulegt ójafnvægi byggðist upp í hagkerfum Íslands og Írlands á árunum fyrir hrun með hratt hækkandi raungengi og miklum viðskiptahalla. Skuldsetning hagkerfanna og hraður vöxtur og umbreyting bankakerfa, sem er eitt einkenni fjármálakreppa um allan heim, var knúinn áfram af ódýru fjármagni.

Aukið lánsfjármagn skilaði sér í miklu framboði af húsnæðislánum með hækkandi veðsetningarhlutfalli og minni kröfum til lántaka, sem var meðal orsaka fasteignabólu í báðum ríkjunum. Atvinnuleysi jókst, skuldir hækkuðu, landsframleiðsla dróst saman, fasteignaverð lækkaði og mörg heimili sátu uppi með yfirveðsett húsnæði.

Staða Íslands og Írlands er ólík. Ísland stendur frammi fyrir banka- og gjaldeyriskreppu, svokallaðri tvíburakreppu, á meðan vandræði Íra nú eru fyrst og fremst afleiðing bankakreppu.

Helsta muninn á viðbrögðum írskra og íslenskra stjórnvalda má finna í ólíkum viðbrögðum við fallandi bankakerfi," segir í vefriti ráðuneytisins.

Neyðarlög hér en ótakmörkuð ríkisábyrgð þar

Á Íslandi voru sett neyðarlög, sem gerðu stjórnvöldum kleift að skilja erlendar skuldir og eignir eftir í gjaldþrota bönkum og stofna nýja á grunni þeirra. Tryggt var að innlend bankastarfsemi héldi áfram, enda er starfhæfur fjármálamarkaður ein lykilforsenda hagvaxtar í þróuðum hagkerfum. Í kjölfarið mótuðu stjórnvöld efnahagsáætlun í samstarfi við AGS, með áherslu á að tryggja stöðugleika í gjaldeyrismálum, ábyrg ríkisfjármál og varðstöðu um velferðarkerfið.

Á Írlandi voru viðbrögðin af öðrum toga. Írsk stjórnvöld gáfu út ótakmarkaða ríkisábyrgð á innistæður (e. blanket guarantee) og skuldbundu sig til að veita bönkunum fjárhagslegan stuðning. Ríkið tók þar með fulla ábyrgð á bönkunum svo að erfiðara er að skilja á milli erfiðleika bankanna og ríkissjóðs. Óvissan um endurfjármögnun bankanna og getu ríkisins til þess að standa við þær skuldbindingar sínar eru helstu ástæður þess að írska kreppan hefur dregist á langinn og stjórnvöld leita til AGS nú, tveimur árum á eftir Íslandi.

Evran setur Írum skorður

„Uppgangur írska hagkerfisins leiddi að miklu leyti af aðild að evrópska efnahagssvæðinu og upptöku evrunnar. Evran setur Írum hins vegar nokkrar skorður nú þar sem aðlögun hagkerfisins getur ekki orðið í gegnum gengislækkun líkt og orðið hefur á Íslandi. Aðlögun hagkerfisins, með lækkandi raungengi, verður því í meira mæli að koma fram í gegnum vinnumarkaðinn með lækkun launa og auknu atvinnuleysi.

Á Íslandi er gjörólík skipan gjaldeyrismála, þar sem laun fólks eru í óverðtryggðum krónum og skuldir að mestu í verðtryggðum krónum eða tengdar erlendum gjaldmiðlum. Samhliða lækkandi húsnæðisverði hefur þetta valdið hratt hækkandi greiðslubyrði og versnandi eignastöðu. Fall krónunnar olli miklum erfiðleikum fyrir heimilin. Hagkerfið er enn í fjötrum gjaldeyrishafta vegna hins veika gjaldmiðils og hætt við að kostnaður vegna þeirra ágerist sífellt eftir því sem tíminn líður.

Á Írlandi hins vegar eru laun fólks og skuldir að mestu í sömu mynt, evrunni. Lán írskra heimila hafa því ekki stökkbreyst á sama hátt og á Íslandi en lækkun húsnæðisverðs og hratt hækkandi atvinnuleysi hafa, líkt og á Íslandi, komið mörgum írskum heimilum í vanda," segir í vefritinu, sem hægt er að lesa í heild hérmbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka