Markaðssetja roðdráttarvél frá Ólafsfirði

Uppsetning á vinnsluvél frá Vélfag ehf.
Uppsetning á vinnsluvél frá Vélfag ehf.

Fyrirtækið Vélfag ehf. í Fjallabyggð vinnur nú að því að markaðssetja nýja roðdráttarvél sem var fyrst kynnt á sjávarútvegssýningunni síðasta haust.  Með höfuðstöðvar sínar á Ólafsfirði hefur félaginu stöðugt vaxið fiskur um hrygg og bætt jafnt og þétt í vörulínu sína. Hjá félaginu vinna nú 9 starfsmenn í fullu starfi.

Vélfag er í eigu hjónanna Bjarma A. Sigurgarðarssonar og Ólafar Ýrar Lárusdóttur og stýrir Ólöf rekstri fyrirtækisins en Bjarmi sér um vöruþróun og hönnun. „Við framleiðum nú  vélar sem standast fyllilega samkeppni við erlenda framleiðslu,“ sagði Ólöf Ýr. Aðspurð segir hún það hafa gengið ágætlega að staðsetja félagið á Ólafsfirði. Það tryggi minni starfsmannaveltu og vegur að nokkru leyti upp á móti skorti á tækni- og iðnmenntuðu fólki.  Starfsmennirnir hafi einnig flestir yfirgripsmikla  þekkingu á verklagi og vinnslu í sjávarútvegi sem skipti gríðarlega miklu máli, segir Ólöf Ýr.  Hluti af framleiðslunni er einnig unninn í samstarfi við önnur iðnfyrirtæki, aðallega á Eyjafjarðarsvæðinu. Kjöraðstæður séu hins vegar til að þróa slíkan vélbúnað í nálægð við metnaðarfull sjávarútvegsfyrirtæki í Ólafsfirði og Eyjafirði.

Byltingarkennd hönnun

Upphaf félagsins má rekja til þess að Bjarmi réð sig til að sjá um vinnsluvélar um borð í Mánabergi, skipi Þormóðs ramma - Sæbergs hf., síðar Ramma hf., á miðjum tíunda áratug síðustu aldar. Bjarmi er menntaður bifreiðasmiður og sá fljótt að það mætti bæta fiskvinnsluvélar um borð, meðal annars til að auka nýtingu og glíma við tæringu. Hann hóf tilraunir með slíkt í samvinnu við útgerðina og í framhaldinu var Vélfag stofnað um slíka þjónustu og viðhaldsvinnu á Ólafsfirði.  Stefnan var fljótlega sett á að smíða nýja flökunarvél frá grunni og hafa þær nú verið settar upp í fjölda skipa og einnig í landvinnslum.  Fyrirtækið framleiðir einnig tæringarfría hausara og nú er semsagt þriðja vélin á leið á markað og sagði Ólöf Ýr að þar væri að mörgu leyti um að ræða byltingarkennda hönnun.

Eins og áður segir eiga hjónin félagið alfarið. Þó það hafi vissulega sína galla hefur það sína kosti líka og þau gátu haldið fast við stefnu sína um smíði á hágæðavélum sem  alfarið væru framleiddar innanlands á tímum sem ekki var mikil þolinmæði fyrir slíku hjá fjárfestum.  Ólöf Ýr sagði að fyrirtækið hefði notið góðs af nálægðinni við Ramma og Samherja og þessi félög og fleiri hefðu reynst vera viljug til að vinna með þeim að þessu markmiði;  keypt þjónustu og lausnir þeirra sem aftur fjármagnaði þetta nýsköpunarstarf.  Öðruvísi hefði þessi innlenda iðnframleiðsla þeirra aldrei orðið að veruleika. Megnið af íhlutum í framleiðslu Vélfags er smíðað á verkstæði félagsins á Ólafsfirði. 

M700 vélin handsöluð Eiríki Óla Dagbjarssyni, útgerðarstjóra hjá Þorbirni Hf., …
M700 vélin handsöluð Eiríki Óla Dagbjarssyni, útgerðarstjóra hjá Þorbirni Hf., en vélin fer um borð í Gnúp GK 11 innan fárra vikna. Frá vinsri: Ólöf Ýr Lárusdóttir, Bjarmi Arnfjörð Sigurgarðarsson og Eiríkur Óli Dagbjartsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK