Heimaey hefur áhrif á vöruskiptin

Heimaey siglir inn í höfnina í Vestmannaeyjum.
Heimaey siglir inn í höfnina í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Afgangur af vöruskiptum við útlönd í maí síðastliðnum var aðeins 213 milljónir króna samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun. Er hér um minnsta afgang að ræða frá því fyrir hrun, að janúar 2009 undanskildum þegar halli var á vöruskiptum. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Það sem skýrir þennan litla afgang er að skip Ísfélagsins, Heimaey VE-1, er inni í tölunum um innflutning og var verðmæti innflutnings þar með óvenjumikið af þessum sökum. Alls voru fluttar inn vörur í maí fyrir 56,6 milljarða króna, og þar af nam innflutningur flutningatækja 10,2 milljörðum og er verðmæti Heimaeyjar VE-1 dágóður hluti af þeirri fjárhæð.

Á föstu gengi jókst innflutningur þar með um rúm 11% á milli ára. Á hinn bóginn stóð útflutningur í stað á milli ára sé leiðrétt fyrir gengisbreytingum en alls voru fluttar út vörur fyrir 56,8 ma.kr. Líkt og að undanförnu var gríðarlegur vöxtur í útflutningi sjávarafurða, en alls nam útflutningsverðmæti þeirra 26,3 milljörðum króna í mánuðinum sem er aukning upp á tæp 38% á föstu gengi. Á hinn bóginn dróst innflutningur iðnaðarvara verulega saman á milli ára, en alls voru fluttar út iðnaðarvörur fyrir um 28,5 ma.kr. í maí sem er um 21% minna en í maí í fyrra, segir í Morgunkorninu.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir