Evran notuð sem blóraböggull

Yves-Thibault de Silguy, fyrrverandi framkvæmdarstjóri hjá Evrópusambandinu.
Yves-Thibault de Silguy, fyrrverandi framkvæmdarstjóri hjá Evrópusambandinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Við verðum að hætta að nota evruna sem blóraböggul,“ sagði Yves-Thibault de Silguy, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Evrópusambandinu og einn af hugmyndasmiðum evrunnar, á morgunverðarfundi hjá Fransk-íslenska viðskiptaráðinu.

Silguy var framkvæmdastjóri gjaldmiðilsmála hjá ESB árin 1995-1999 þegar grunnurinn að evrusamstarfinu var lagður. Hann er ekki í vafa um að upptaka evru hafi verið rétt skref sem hafi skilað miklum árangri. Efnahagslíf Evrópu hefði vaxið hraðar eftir upptöku evru en áður en evran varð til. Evran hefði dregið til sín erlenda fjárfestingu. Verðbólga hefði minnkað með tilkomu evrunnar. Vextir hefðu einnig lækkað í Evrópu og það eitt og sér hefði stuðlað að vexti í efnahagslífi Evrópu. Samkeppnishæfi fyrirtækja hefði aukist með tilkomu evru. Hann sagði að á þeim áratug sem liðinn væri frá upptöku evru hefðu orðið til 50 milljónir nýrra starfa í Evrópu, en á áratugnum þar á undan hefðu orðið til 5 milljónir nýrra starfa. Atvinnuleysi hefði minnkað úr 9% niður í 7%. Hann sagði að þetta væri árangurinn áður en kreppan skall á árið 2008.

Silguy gerði ekki lítið úr þeim vanda sem Evrópa stæði frammi fyrir. Það mætti hins vegar ekki kenna evrunni um vandann. Vandinn væri efnahagskreppa en ekki gjaldeyriskreppa. Það væru aðildarþjóðir ESB sem bæru ábyrgð á stöðu mála í dag því þær hefðu ekki staðið við skuldbindingar sínar og ekki virt ákvæði Maastricht-sáttmálans um skuldasöfnun og jafnvægi í ríkisfjármálum.

Silguy sagðist ekki sjá fyrir sér að Grikkland færi úr evrusamstarfinu. Það myndi marka endalok hugmyndarinnar um hinn sameiginlega markað. Franskir og þýskir bankar væru líka of tengdir Grikklandi til að þeir gætu staðið af sér efnahagslegt hrun Grikklands.

Silguy sagði mikilvægt að endurskoða stjórnskipulag ESB þannig að stofnanir þess fengju vald til að fylgja eftir ákvæðum Maastricht-sáttmálans. Evrulöndin yrðu einnig að ná tökum á ríkisfjármálum sínum og stöðva skuldasöfnun.

Silguy sagðist ekki ætla sér að ráðleggja Íslendingum hvort þeir ættu að taka upp evru eða ekki. Hann minnti einungis á að til að geta tekið upp evru yrði Ísland að ganga í ESB og uppfylla ákæði Maastricht-sáttmálans um skuldastöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK