Mikill áhugi á sæstreng milli Íslands og Færeyja

Frá landtökustað Danice-sæstrengsins í Landeyjum.
Frá landtökustað Danice-sæstrengsins í Landeyjum.

Megininntak viljayfirlýsingarinnar sem Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Íslands og Johan Dahl, viðskipta- og iðnaðarráðherra Færeyja undirrituðu í dag í Helsinki, gengur út á að kannaður verði möguleiki þess að lagður verði sæstrengur frá Íslandi til Færeyja. Auk þess er áréttaður vilji beggja þjóðanna til að auka notkun endurnýjanlegrar orku og að stuðla að samstarfi á sviði orkutækni og -vísinda. Þetta kemur fram í frétt frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Á síðasta ári settu Færeyingar sér það markmið að öll rafoka komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2050. Til að ná fram því markmiði er lögð sérstök áhersla á uppbyggingu vindorkuvera, en einnig á vatnsorku sem nýtt verði til að jafna út álag í kerfinu. Varðandi húshitun er lögð áhersla á uppsetningu varmadæla og beina rafhitun. Jafnframt er gert ráð fyrir að skoðaðir verði möguleikar á að tengja eyjarnar með sæstreng, annað hvort til Íslands eða Skotlands.

Um það bil 60% af allri raforkuframleiðslu í Færeyjum, og nánast öll húshitun, byggir á olíu. Árið 2011 var heildarraforkuframleiðsla í Færeyjum 280 GWst. en á Íslandi um 17.000 GWst. Áætlanir gera ráð fyrir að raforkuþörfin árið 2050 verði allt að 900 GWst. og í þeim áætlunum er gert ráð fyrir rafhitun húsnæðis.

Árið 2007 var gerð úttekt á möguleikum þess að leggja sæstreng frá Íslandi til Færeyja og lauk þeirri vinnu með útgáfu skýrslunnar „Indledende vurderinger af muligheden for at lægge elkabel fra Island til Færøerne“. Orkustofnun og Jarðfeingi, jarðfræðistofnun Færeyja, leiddu þá vinnu. Helstu niðurstöður úttektarinnar árið 2007 voru að ekki væri grundvöllur fyrir frekari vinnu á þeim tímapunkti þar sem slík framkvæmd hefði ekki staðið undir sér fjárhagslega, en hvorki voru þá taldar lagalegar né tæknilegar hindranir í vegi fyrir því að ráðast í slíka framkvæmd.

Í ljósi aukinnar áherslu á notkun endurnýjanlegra orkugjafa og þess að tækniframfarir varðandi sæstrengi hafa verið mjög örar hefur verið ákveðið að endurmeta stöðuna og munu Orkustofnun og Jarðfengi, ásamt orkufyrirtækjum í báðum löndum, koma að því endurmati. Stefnt er að því að niðurstöður liggi fyrir í lok árs 2013, segir í frétt ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK