Erfitt að viðhalda stöðuleika með krónu

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins Morgunblaðið/Styrmir Kári

  Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að það hafi hingað til reynst þrautin þyngri að viðhalda stöðugleika í efnahagslífi okkar örþjóðar með krónuna sem sjálfstæðan gjaldmiðil. Það verði enn stærri áskorun að gera það eftir að verðtrygging verður afnumin og á meðan greiddar verða niður háar skuldir ríkissjóðs.
Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu hennar á ársfundi FME og vísaði hún þar til stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um að íslenska krónan verði áfram gjaldmiðill okkar um ótilgreinda framtíð.

Losa þarf um fjármagnshöftin

Unnur spurði á fundinum hvert viljum við stefna?

„Ljóst er að sterklega er kallað eftir stöðugleika í þjóðfélaginu. Þetta birtist í kröfu um lága verðbólgu, lága vexti og að fólk og fyrirtæki geti gert skynsamlegar áætlanir um fjármál sín miðað við fyrirsjáanlegar forsendur.

Til að af þessu geti orðið þarf að takast að losa um fjármagnshöftin með þeim hætti að ekki ógni fjármálastöðugleika. Ljúka þarf uppgjörum þrotabúa fallinna fjármálastofnana og eignarhald nýju bankanna þarf að komast í hendur hæfra virkra eigenda.

Endurskipuleggja þarf fyrirkomulag veðlána til íbúðakaupa þannig að þau standi undir sér á sama tíma og greitt er fyrir nauðsynlegu aðgengi íbúðakaupenda að lánsfjármagni.

Almenningur hefur að undanförnu hafnað verðtryggingunni sem hefur verið ríkjandi í lánasamningum síðastliðin 34 ár. Það er ljóst að krafan um afnám verðtryggingar er ákall um stöðugleika. Þó verður að vara við því að gefa væntingar um að óverðtryggð lán geti verið með óbreyttum vaxtakjörum í langan tíma,“ sagði Unnur á ársfundi FME í dag.

Skuldir heimilanna mikið áhyggjuefni

Hún segir að skuldsett heimili séu mikið áhyggjuefni. „Árin fyrir hrun var mikið framboð af lánsfjármagni og ljóst er að margir tóku lán langt umfram getu til að greiða þau til baka. Þegar gengið féll með tilheyrandi breytingum á bæði gengistryggðum lánum og verðtryggðum á sama tíma og atvinna fór minnkandi, laun lækkuðu og skattar hækkuðu jókst þessi vandi að miklum mun.

Stjórnvöld gripu til víðtækra ráðstafana til að létta hluta heimilanna, svo sem að setja á fót greiðsluaðlögunarferli fyrir dómstólum o g síðar hjá Umboðsmanni skuldara og 110% leiðina svonefndu.

Á sama tíma hafa fjölmargir dómar fallið sem slegið hafa föstu að ekki hafi samrýmst íslenskum lögum að lána íslenskar krónur með viðmið erlendra gjaldmiðla. Gífurleg vinna hefur farið fram innan fjármálafyrirtækja við endurútreikning og endurgreiðslur til viðskiptavina í kjölfar þessa. Þetta hefur létt fjárhagsstöðu margra heimila en á sama tíma orsakað mismunun sem aftur skapar óróa í samfélaginu.

Staða Íbúðalánasjóðs er afar slæm og búið er að greina mikla þörf fyrir fjárframlög úr ríkissjóði næstu árin til að hann geti staðið við skuldbindingar sínar,“ sagði forstjóri FME í ræðu sinni á ársfundinum í dag.

Ræða Unnar Gunnarsdóttur í heild en hún fjallaði meðal annars um lífeyrissjóðina og stöðu þeirra

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK