HB Grandi slíti tengsl sín við hvalveiðar

mbl.is/Þorvaldur Örn

Norðurameríska matvælafyrirtækið High Liner Foods mun ekki eiga frekari viðskipti við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, þar á meðal HB Granda, fyrr en þau slíta öll tengsl sín við hvalveiðar. 

Í samtali við mbl.is staðfestir Brynjólfur Eyjólfsson, markaðsstjóri HB Granda, að High Liner Foods hafi sent félaginu fyrirspurn og beðið það um að skýra út tengsl sín við hvalveiðar. 

„Við munum auðvitað gera það. En það er ekki eins og hætt hafi verið við einhver viðskipti eða samningum rift. Viðskiptin hafa verið í gangi og við búumst við áframhaldi á því í haust,“ segir hann.

Hann bætir því við að HB Grandi hafi nú þegar uppfyllt núgildandi samning félaganna og afhent allt sem þau höfðu samið um. „Og það voru engin plön um að senda þeim neitt meira fyrr en þeir þurfa nýjar vörur á nýjan leik, og það eru líkur á því að við gerum það,“ segir hann.

Óttast veiðar á dýrum í útrýmingarhættu

High Liner Foods tilkynnti áform sín á sjávarútvegssýningunni Seafood Expo North America sem var haldin í byrjun vikunnar. Greint er frá málinu í frétt á vefsíðunni fishnewseu.com.

Fyrir ráðstefnuna skrifuðu samtökin Whales Need US (WNUS), sem gæti útlagst sem Hvalir þarfnast okkar, fjölmörgum heildsölum og sjávarútvegsfyrirtækjum í Bandaríkjunum, sem kaupa íslenskar sjávarfurðir, bréf. Voru fyrirtækin þar hvött til þess að sýna fram á að þau keyptu ekki fisk af fyrirtækjum sem tengjast hvalveiðum og þá sér í lagi HB Granda.

Tenging í gegnum eignarhaldið

Stærsti hluthafi HB Granda er félagið Vogun, sem er í eigu fiskveiðahlutafélagsins Venusar. Venus er í eigu Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals, Birnu Loftsdóttur og Sigríðar Vilhjálmsdóttur. Vogun á 40,3% hlut í HB Granda, auk þess sem fiskveiðahlutafélagið á 3,4% hlut í HB Granda, samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins.

Kristján Loftsson er enn fremur stjórnarformaður HB Granda.

„Það er tenging við hvalveiðar í gegnum eignarhaldið, en hins vegar er HB Grandi ekki í veiðum, vinnslu eða sölu á hvalaafurðum og hefur aldrei verið. Fyrirtækið tengist þar af leiðandi ekki hvalveiðum á neinn hátt, nema í gegnum þetta eignarhald,“ segir Brynjólfur.

High Liner Foods gaf út yfirlýsingu á ráðstefnunni þar sem fram kom að fyrirtækið styddi hvorki hvalveiðar né viðskipti með hvalaafurðir. Þá sagðist fyrirtækið jafnframt ekki ætla að gera nýja samninga við HB Granda fyrr en það myndi slíta öll tengsl sín við hvalveiðar.

Hefur afnotarétt af vörumerkinu til 2018

Í tilkynningu frá WNUS kemur fram að Hvalur áformi að veiða 770 langreyðar, sem samtökin segja að séu í útrýmingarhættu, á næstu fimm árum og að fyrirtækin tvö, HB Grandi og Hvalur, deili jafnframt húsnæði undir fiskvinnslu.

Susan Millward, framkvæmdastjóri Animal Welfare Institute, fagnaði tíðindunum og sagðist vonast til að fleiri bandarísk fyrirtæki myndu feta í fótspor High Line Foods. Gera ætti hvalveiðimönnum það ljóst að afurðir þeirra væru ekki velkomnar hér.

High Liner Foods keypti í desember árið 2011 rekstur Icelandic Group í Bandaríkjunum og Kína á 230 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 26,2 milljarða íslenskra króna. Fram kom í tilkynningu frá fyrirtækinu á þeim tíma að Icelandic Group myndi áfram eiga vörumerkið Icelandic Seafood en að kaupandinn myndi eiga afnotarétt af því fram til haustsins 2018.

Höfuðstöðvar HB Granda.
Höfuðstöðvar HB Granda.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK