Horn II kaupir þriðjungshlut í Fáfni Offshore

Skip Fáfnis.
Skip Fáfnis. Ljósmynd/Fáfnir

Framtakssjóðurinn Horn II slhf. sem er í rekstri Landsbréfa, hefur fest kaup á 33% hlut í Fáfnir Offshore hf. Um er að ræða hlutafjáraukningu hjá Fáfni sem nýtt verður til kaupa á nýju skipi til að þjónusta olíuiðnaðinn á norðurslóðum, að því er segir í fréttatilkynningu.

Fáfnir Offshore hf. er fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla auk annarra verkefna á norðlægum slóðum, til dæmis leitar- og björgunarstörf. Fyrsta skip félagsins ber nafnið Polarsyssel og verður það afhent nú í haust.

Horn II slhf. verður eftir hlutafjáraukninguna stærsti einstaki hluthafi félagsins með um 33% hlut en stofnandi félagsins, Steingrímur Erlingsson, er með um 30% hlut. Aðrir hluthafar eru bæði innlendir og erlendir með mikla þekkingu á skiparekstri, að því er segir í tilkynningunni.

Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi. Fyrsta skip Fáfnis er mjög vel útbúið skip sem er sérhannað ísklassa skip fyrir norðlægar slóðir og getur athafnað sig við erfiðar aðstæður, svo sem þar sem hafíss gætir. Félagið hefur gert sex ára samning um leigu á skipinu til sýslumannsins á Svalbarða með framlengingarákvæði upp á tvisvar sinnum tvö ár.

Hlutafjáraukningin frá Horni II gerir félaginu kleift að ganga frá pöntun á skipi númer tvö. Um er að ræða PSV ísklassa skip, sambærilegt við Polarsyssel, en aðeins stærra og öflugra. Stefnt er að stækkun flotans enn frekar á næstu árum, með það að markmiði að skrá félagið á markað.

Þátttakandi í uppbyggingunni á norðlægum slóðum

Steingrímur Einarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Fáfnis Offshore hf., segir að með fjárfestingu í ísklassa skipum ætli félagið að vera þátttakandi í þeirri uppbyggingu sem á sér stað í kringum olíu- og gasiðnaðinn á norðlægum slóðum.

„Við erum mjög ánægð með að styrkja enn frekar við hluthafahóp félagsins með aðkomu Horns í hópinn. Hlutafjáraukningin nú gerir okkur kleift að vinna eftir okkar markmiðum og höfum við í kjölfarið gert samning um kaup á nýju skipi sem afhent verður á næsta ári,“ eR haft eftir honum í tilkynningunni.

Horn II er rúmlega 8,5 milljarða króna félag um framtaksfjárfestingar, stofnað af Landsbréfum. Hluthafar eru um þrjátíu talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum. Yfirlýst stefna Horns II er að fjárfesta í óskráðum félögum. Lokað var fyrir áskrift að hlutafé á árinu 2013 og eru kaupin á Fáfnir Offshore önnur fjárfesting sjóðsins á þessu ári.

Afar spennandi tækifæri

„Horn II telur fjárfestingu í þjónustufélagi við olíuiðnaðinn vera afar spennandi. Mikill vöxtur hefur verið í leit að olíu og borun á norðurslóðum á undanförnum árum og er fyrirséð að á næstu árum verði enn frekari vöxtur á því svæði. Við teljum pláss fyrir nýtt félag með sérhæfingu á erfiðum hafsvæðum vera til staðar og að Fáfnir Offshore sé að koma á réttum tíma inn á þann markað. Með samning við sýslumanninn á Svalbarða hefur Fáfnir sýnt fram á getu við öflum verkefna til handa sérhæfðum skipum sem er afar mikilvægt í þessum rekstri.

Við teljum félagið vera í góðri aðstöðu til að taka þátt í frekari fjárfestingu á nýjum skipum á næstu árum.“ segir Hermann M. Þórisson, annar af framkvæmdastjórum Horns II, í tilkynningunni.

Ráðgjafi seljanda var norski fjárfestingabankinn Pareto Securities.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK