Greidd krafa grundvöllur gjaldþrots

Gjaldþrot Ólafs var staðfest í Hæstarétti þótt að krafan sem …
Gjaldþrot Ólafs var staðfest í Hæstarétti þótt að krafan sem gjaldþrotið var byggð á hafi verið greidd. mbl.is

Í síðustu viku var kveðinn upp nokkuð óvenjulegur dómur í Hæstarétti þegar ákvörðun héraðsdóms um gjaldþrot einstaklings var samþykkt, þrátt fyrir að krafan sem gjaldþrotabeiðnin grundvallaðist á hafi verið greidd. Gjaldþrotið er nokkuð stórt, eða upp á 578 milljónir, en stærstur hluti þess er vegna ábyrgðar á yfirdráttarheimildar hjá fyrirtæki sem er farið á hliðina. Ábyrgðaaðilar standa enn í dómsmálum vegna ábyrgðarinnar og því var ekki hægt að byggja á þeirri kröfu sem stendur.

Fjárnám vegna tveggja milljóna skuldar

Það er Landsbankinn sem krafðist gjaldþrots yfir Ólafi H. Jónssyni, en áður hafði bankinn látið gera fjárnám hjá honum vegna skuldar upp á tæplega tvær milljónir. Samkvæmt heimildum mbl.is var Ólafi ekki kunnugt um þá niðurstöðu fyrr en nokkru seinna þegar farið var að semja um tvö erlend gjaldeyrislán sem hann var með tryggð í húsnæði sem hann átti.

Í heild voru skuldir Ólafs við bankann því í formi fjögurra lána eða ábyrgða, tveggja húsnæðislána, tæplega tveggja milljóna láns og ábyrgðar upp á rúmar 525 milljónir fyrir félagið Vendi ehf., en bæði Ólafur og Þorsteinn Hjaltested voru þar í ábyrgð.

Ekki er hægt að krefjast gjaldþrots vegna skuldar sem er með tryggingu eins og húsnæðisskuldirnar og ábyrgðamálið var fyrir dómi. Bankinn ákvað því að krefjast gjaldþrots í ljósi minnstu skuldarinnar og var það staðfest í héraðsdómi á þeirri forsendu að fjárnámið hafi á sínum tíma reynst árangurslaust og hafi því verið sönnunargagn upp á ógjaldfæri Ólafs.

Greiddi upp skuldina en gjaldþrotið staðfest

Í kjölfarið greiddi Ólafur upp þá skuld og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Þar var niðurstaða héraðsdóms staðfest með þessum orðum: „Að þessu virtu verður að líta á hið árangurslausa fjárnám, sem gert var hjá sóknaraðila 2. september 2013, sem sönnunargagn um ógjaldfærni hans. Breytir í því sambandi engu þótt skuldin sem leiddi til fjárnámsins hafi verið greidd.

Umsvifamikill í viðskiptalífinu

Ólafur hefur víða komið við í viðskiptalífinu og rak um tíma verslunarveldi undir nafninu Hagur hf., en það átti meðal annars í Stöð 2, heildsölu og nokkrar verslanir. Upp á síðkastið hefur hann verið þekktastur fyrir störf sín sem formaður Landeigenda Reykjahlíðar ehf., en félagið hefur unnið að því að rukka inn á ferðamannastaði innan landsvæðisins sem meðal annars inniheldur Dettifoss að vestanverðu, svæði við Leirhnjúk og hverasvæðið við Námafjall. 

Ólafur H. Jónsson, var úrskurðaður gjaldþrota þrátt fyrir að hafa …
Ólafur H. Jónsson, var úrskurðaður gjaldþrota þrátt fyrir að hafa greitt upp skuldina sem beiðnin var grundvölluð á.
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK