2,5 milljarða fjármögnun hjá Eyrir Sprota

Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyrir Invest og formaður fjárfestingaráðs Eyris Sprota, …
Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyrir Invest og formaður fjárfestingaráðs Eyris Sprota, og Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, við undirritun samkomulagsins. Með á myndinni eru Einar Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur á sviði nýsköpunar hjá Arion banka, og Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri Eyris Sprota. Mynd/Eyrir Invest

Í fyrsta áfanga fjármögnunar á sprota- og vaxtasjóði Eyris Invest, Eyrir Sprotar slhf., söfnuðust um 2,5 milljarðar króna. Fagfjárfestar tóku þátt í fjármögnuninni en sjóðurinn hefur nú þegar fjárfest í nokkrum spennandi nýsköpunarverkefnum og eru fjölmörg verkefni til viðbótar í skoðun hjá sjóðnum.

Eyrir Sprotar er rekinn af Eyrir Invest í samstarfi við Arion banka, en Eyrir og Arion banki eru stærstu hluthafar sjóðsins. Arion banki hefur stutt ríkulega við nýsköpunarumhverfið á Íslandi á undanförnum árum m.a. með því að skipuleggja frumkvöðlahraðalinn Startup Reykjavík og með öflugum stuðningi við frumkvöðla. Aðrir fjárfestar eru lífeyrissjóðir og fagfjárfestar.

Sjóðurinn á enn í viðræðum við nokkra áhugasama fjárfesta um þátttöku og er gert ráð fyrir að seinni hluta fjármögnunar verði lokað fljótlega. Arctica Finance annaðist umsjón með fjármögnun Eyris Sprota.

Nýjar fjárfestingar innan skamms

„Það er mjög ánægjulegt að ljúka þessum áfanga í fjármögnun“, er haft eftir Erni Valdimarssyni, framkvæmdastjóri Eyris Sprota, í tilkynningu. „Við höfum verið að vinna í fjölmörgum áhugaverðum verkefnum undanfarna mánuði og fjármögnun sjóðsins gerir okkur kleift að fylgja þeim verkefnum enn betur eftir. Við væntum þess ennfremur að geta sagt frá fleiri nýjum fjárfestingum innan skamms.“

Þórður Magnússon, formaður fjárfestingaráðs Eyris Sprota, segir nýsköpunarumhverfi á Íslandi í dag afar frjótt og spennandi. „Umhverfið sem á undanförnum árum hefur verið byggt upp á Íslandi til stuðnings nýsköpun og sprotafyrirtækjum er afar vel heppnað til að byggja upp tæknilega hæfni þessara fyrirtækja. Hins vegar hefur skort fjármuni og getu til að byggja upp sölu og dreifingarkerfi erlendis. Þessi fjármögnun og fjármögnun inn í aðra sprotasjóði bætir úr brýnni þörf til að styðja við uppbyggingu fyrirtækja framtíðarinnar,“ er haft eftir Þórði í tilkynningunni.

„Arion banki hefur lagt ríka áherslu á að styðja við nýsköpun á Íslandi, m.a. í gegnum verkefnin Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík. Í gegnum þessi verkefni hefur Arion banki fjárfest í á fimmta tug nýsköpunarfyrirtækja. Okkur hefur hins vegar fundist vanta fjármögnunarkosti fyrir nýsköpunarfyrirtæki og því er sérstaklega ánægjulegt að koma að stækkun þessa sprota og vaxtasjóðs. Við höfum mikla trú á að þessi fjárfesting muni reynast bankanum arðsöm“, er þá haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka hf.

Fjárfestingaráðið

Í fjárfestingaráði Eyris Sprota sitja auk Þórðar, Hilmar Bragi Janusson, Kristín Guðmundsdóttir  og  Magnús Ingi Óskarsson. Hilmar er forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og fyrrum framkvæmdastjóri vöruþróunar og rannsóknarstarfs hjá Össuri hf. Kristín  starfaði áður sem forstjóri og fjármálastjóri hjá Skiptum hf. og sem fjármálastjóri Granda hf. Magnús Ingi Óskarsson var einn stofnenda Calidris sem var selt til hugbúnaðarfyrirtækisins Sabre Airline Solutions árið 2010. Þórður Magnússon er stjórnarformaður Eyrir Invest hf. og hefur komið að uppbyggingu fjölmargra sprotafyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK