„Ísland er þorpsfíflið“

Jón Daníelsson, prófessor við LSE.
Jón Daníelsson, prófessor við LSE. mbl.is/Rósa Braga

Höftin eru verstu mistök sem voru gerð í kjölfar hrunsins. Það að hafa ekki afnumið þau eru einnig verstu mistökin. Þetta segir Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics. Hann segir ekki rétt að treysta alþjóðastofnunum, innlendum stjórnmálamönnum né ráðgjöfum sem hafa hagsmuni af höftunum.

Þetta kom fram í erindi hans á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins um afnám hafta.

Jón sagði að Íslendingar hefðu eftir engu að bíða. „Það er hægt að afnema höftin mjög hratt og það er hægt að gera það strax,“ sagði Jón og líkti Íslendingum við gamla frændann sem langaði alltaf til þess að kaupa sér tölvu en væri sífellt að bíða eftir næstu uppfærslu frá Apple. Að lokum myndi hann aldrei eignast tölvuna. 

Hagsmunir af höftum

Hann benti á ýmsan kostnað sem fylgir höftunum. Í fyrsta lagi einangra þau landið frá umheiminum og búa til ákveðinn stöðugleika og gera fyrirtækjum þannig kleift að þróast og dafna innan haftanna. Þannig geti skapast miklir hagsmunir fyrir því að viðhalda höftunum. Þá séu einnig auknar líkur á spillingu, þó að ekki sé mikið rætt um það á Íslandi, gerist það í öðrum löndum að sögn Jóns. Þá verði efnahagssveiflur meiri og langtímahagvöxtur minni.

„Við skulum skoða hópinn sem við höfum valið okkur að tilheyra,“ sagði hann og taldi m.a. upp Grikkland, Kúbu og Norður-Kóreu. Með því að vera með höft erum við að segja að við séum ekki alvöru land sem ræður við sín mál. „Þú hefur valið að vera þorpsfíflið. Þetta er eins og verndaður vinnustaður,“ sagði hann.

Óþolinmóðir eru farnir úr landi

Þá sagði Jón að kostnaðurinn við að hafa höftin væri til lengri tíma meiri en kostnaðurinn við að taka þau af. „Þú vilt hins vegar ekki afnema höftin ef þú ert ráðherra sem hugsar um næstu kosningar,“ sagði hann og vísaði til skammtímakostnaðar sem skapast af því að afnema höftin. „En hvað er að koma í veg fyrir að menn afnemi þau?“ spurði Jón.

Hann benti á að í fyrsta lagi gæti verið að um vanskilning á eðli fjármálamarkaða væri að ræða, í öðru lagi væri mikið af slæmri ráðgjöf og í þriðja lagi væru ráðandi hagsmunir af því að viðhalda höftum, líkt og t.d. rekstur í skjóli hafta.

Þá vísaði Jón til hræðslu um skyndilegt gjaldeyrisútfæði við afnám haftanna og sagðist telja það líklegra að gjaldeyrir myndi flæða inn í landið. Hann sagði óþolinmóðustu krónueigendurna vera farna úr landi í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabankans og að aðrir vissu vel hvað myndi gerast ef öllu yrði mokað út úr landinu í einum vettvangi.

„AGS verndar erlenda kröfuhafa“

Jón gerði Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að umtalsefni og sagði ekki rétt að treysta ráðgjöf þeirra. Í fyrsta lagi sagði hann að hæfasta fólkið væri ekki endilega að starfa þar og í öðru lagi sagði hann að „öll þessi batterí væru með falið agenda.“ 

„AGS hefur það að meginmarkmiði að vernda hagsmuni erlendra kröfuhafa,“ sagði hann og rakti söguna aftur til kreppunnar í Perú árið 1976 þegar Bandaríkin þurftu á alþjóðlegri stofnun að halda til þess að eiga við ríkið. „AGS stökk á það að verða fulltrúi erlendra kröfuhafa. Þegar við erum að hlusta á ráð AGS erum við að hlusta á ráð manna sem hafa hagsmuni erlendra kröfuhafa að leiðarljósi,“ sagði hann og bætti við að einungis væri verið að auka áhrif þeirra og völd í heiminum með þessu. „Starfsmenn þeirra á Íslandi eru kannski ekki að hugsa út í þetta en þeir sem eru að reka AGS gera það svo sannarlega,“ sagði Jón.

„Það á alls ekki að bíða eftir réttum tíma. Það er hægt að afnema höftin mjög hratt og gera það strax,“ sagði Jón að lokum.

Afnám gjaldeyrishafta var umræðuefnið á fundi Samtaka atvinnulífsins í morgun
Afnám gjaldeyrishafta var umræðuefnið á fundi Samtaka atvinnulífsins í morgun mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK