Saltvinnsla í Breiðafirði

Saltið inniheldur mun minna natríum en aðrar tegundir.
Saltið inniheldur mun minna natríum en aðrar tegundir.

Ung hjón hafa fest kaup á eina bænum í Svefneyjum á Breiðafirði. Þar ætla þau að framleiða salt úr þara með sömu aðferð og víkingarnir gerðu, nýta æðardún í sængur, reka gistiheimili og verka söl. 

Hjónin Guðni Þór Þrándarson og Marie Legatelois hafa hrint af stað söfnun á Karolina Fund þar sem þau hyggjast safna fjármunum til þess að geta gert upp hlöðuna í Svefneyjum fyrir saltverksmiðju. Uppskriftin er þegar tilbúin og framleiðsla hafin í smáum skömmtum.

Þau eru að kaupa hlut í Svefneyjum ásamt annarri fjölskyldu og ætla að flytja þangað um leið og kaupin eru að fullu gengin í gegn. Guðni og María ætla að búa þar ein með dóttur sinni allt árið en ýmsir úr fjölskyldu þeirra verða með þeim á sumrin. Þá verða meðeigendurnir að Svefneyjum einnig töluvert á svæðinu.

Forfeður með hlutina á hreinu

Hjónin stefna að því að endurvekja þangbrennslu víkinganna og bæta með því steinefnastöðu almennings. „Það kemur stundum á óvart hvað forfeður okkar voru með hlutina mikið betur á hreinu varðandi mataræði,“ segir Guðni Þór og bætir við að um 90% manna noti of mikið salt og eins að marga skorti mikilvæg steinefni sem leiði til of margra lífsstíls-tengdra sjúkdóma eða dauðsfalla.

Hann bendir á að Íslendingar til forna hafi brennt þara og notað sem salt. Þau hyggjast gera hið sama og nefnist afurðin Viking Silver.

Guðni og Marie hafa þegar látið Matís efnagreina saltið og í niðurstöðunum kemur fram að afurðin inniheldur einungis 8,8% natríum, sem er um 1/4 af því sem hefðbundið salt gerir, er full af joði og kalíum auk þess að innihalda 72 steinefni. 

Guðni segir að ekkert þangbragð sé af saltinu þar sem bragðið hverfur við háan hita.

Ekki saltvinnsla í fyrsta sinn

Aðspurð hvernig flutningarnir til Svefneyja hafi komið til segir Guðni að fjölskyldan hafi verið að leita af heimili í sveit og að umhverfið hafi fallið fullkomnlega að draumum þeirra um saltverksmiðju. Í dag nota þau hrossaþara eða mjöl frá þörungaverskmiðjunni en eftir flutningana stefna þau á að safna þaranum sjálf í fjörunni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem saltframleiðsla fer fram í Svefneyjum en sagan segir að eyjarnar dragi einmitt nafn sitt af því.

Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld, sem var Svefneyingur, segir frá því í einu rita sinna að eyjarnar dragi nafn af því að Hallsteinn Þórólfsson á Hallsteinsnesi, sem nefndur er í Landnámabók, hafi þar fundið þræla sína sofandi. Þeir munu hafa verið yfirbugaðir af þreytu eftir að Hallsteinn hafði sent þá til saltgerðar. Svefninn reyndist þrælunum dýrkeyptur þar sem Hallsteinn mun hafa drepið þá fyrir sviksemina.

Nóg að gera

Auk þess að ætla sér stóra hluti með saltvinnsluna ætla hjónin ekki að sitja með hendur í skauti þar sem þau hyggjast einnig reka gistiheimili í öðru íbúðarhúsinu sem þar er. Alls eru tvö íbúðarhús auk nokkurra útihúsa í Svefneyjum.

Þá segir Guðni að töluverð dúnþekja sé á svæðinu og þau ætla sér að safna dún og nota í sængur.

Söfnunin á Karolina Fund er nýhafin og hafa þegar safnast um 26 þúsund krónur. Markmiðið er að safna rúmri hálfri milljón króna en fólk getur styrkt fyrirtækið og í staðinn fengið ávísun á salt í samræmi við framlagið þegar framleiðsla hefst.

Hlaðan sem hjónin ætla að gera upp fyrir saltvinnsluna.
Hlaðan sem hjónin ætla að gera upp fyrir saltvinnsluna. Mynd af Karolina Fund
Marie, Guðni og dóttir þeirra Adéle.
Marie, Guðni og dóttir þeirra Adéle. Mynd af Facebook síðu Íslensku saltgerðarinnar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK