Þriðjungur landsframleiðslu horfinn

Kínverskir fjárfestar eru óttaslegnir um þessar mundir.
Kínverskir fjárfestar eru óttaslegnir um þessar mundir. AFP

Á meðan allra augu beinast að Grikklandi, þá er risastór bóla að springa á kínverska hlutabréfamarkaðinum. Helstu hlutabréfavísitölur í Kína hafa lækkað um meira en 30% á undanförnum þremur vikum og virðist ekkert lát vera á lækkuninni.

Kínversk hlutabréf héldu áfram að hrynja í verði í dag, þrátt fyrir að kínverska kommúnistastjórnin hafi tilkynnt að hún hygðist grípa til enn frekari aðgerða til að stemma stigu við þeim gríðarlegu lækkunum sem hafa verið á hlutabréfaverði í landinu undanfarnar vikur og blása enn fremur fjárfestum von í brjóst.

Greinendur efast um að aðgerðir stjórnvalda muni virka. Hingað til hafa djarfar aðgerðir þeirra til að hægja á - eða jafnvel snúa lækkuninni við - ekki náð neinum árangri.

Shanghai-hlutabréfavísitalan lækkaði um 5,9% í viðskiptum dagsins og endaði í 3.507 stigum. Lækkunin er ekki bundin við meginland Kína, en helsta hlutabréfavísitalan í Hong Kong fór niður um 5,84% í dag og hefur ekki lækkað jafnmikið á einum degi frá því í nóvember 2008, í fárviðri fjármálahrunsins.

Hækkaði meira en 150%

Það má segja að bóla hafi fyrst tekið að myndast á kínverskum hlutabréfamarkaði á seinni hluta síðasta árs. Og það þrátt fyrir að hagvöxtur hafi þá ekki mælst eins lítill í landinu í 24 ár.

Margir telja að vaxtalækkun Seðlabanka Kína þann 21. nóvember síðastliðinn hafi komið snjóboltanum af stað. Þetta var í fyrsta sinn í meira en tvö ár sem bankinn lækkaði stýrivexti sína. Og fjárfestar voru greinilega ánægðir.

Hlutabréf snarhækkuðu í verði í kjölfarið og héldu áfram að hækka eftir því sem leið á þetta ár. Sló Shanghai-hlutabréfavísitalan öll met í byrjun júnímánaðar þegar hún náði fimm þúsund stigum.

Þegar hún náði hámarki sínu þann 12. júní hafði hún hækkað um meira en 150% á seinustu tólf mánuðum.

Þann 15. júní fór síðan heildarvirði fyrirtækja sem eru skráð á kínverska hlutabréfamarkaðinn yfir tíu þúsund milljarða dala. Þá hafði markaðsvirðið hækkað um 6.700 milljarða dala á tólf mánaða tímabili.

Einn þriðji af landsframleiðslu fuðrað upp

Það er athyglisvert að það var raunar ekki fyrr en í júnímánuði að skyndilega fór að bera á tali um bólumyndun á markaðinum. Sama dag og markaðurinn náði hámarki sínu, þann 12. júní, þá tilkynntu kínversk yfirvöld að þau myndu þrengja heimildir fjárfesta til að fá lán fyrir hlutabréfakaupum. Þangað til höfðu stjórnvöld þar í landi haldið sig til hlés, en um leið og þau greindu frá því að gripið yrði til aðgerða, þá var eins og við manninn mælt.

Hlutabréf tóku strax að lækka í verði og hafa hríðfallið síðan þá. Frá því að markaðurinn náði hámarki hafa helstu hlutabréfavísitölur í landinu lækkað um næstum þriðjung. Fram kemur í umfjöllun AFP að jafnvirði eins þriðja af landsframleiðslu Kína hafi einfaldlega fuðrað upp á undanförnum þremur vikum.

Í frétt Financial Times segir að hrunið á hlutabréfamarkaðinum þýði í raun að jafnvirði þrjú þúsund milljarða dala hafi horfið. Það jafnast á við um þriðjungs landsframleiðslu Kína.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hlutabréf falla í verði í Kína - langt í frá. Frá því árið 2007, þegar kreppa skall á í landinu, sem og víða um heim, lækkaði til að mynda Shanghai-vísitalan um sjötíu prósent. En sérfræðingar benda á að hrunið sem eigi sér stað nú sé alvarlega en áður.

Leiðarahöfundur Financial Times bendir til að mynda á að kínverska hagkerfið sé heldur brothætt um þessar mundir. Hagvöxtur hefur mælst minni en fjármálagreinendur höfðu gert sér vonir um. Þá hafa margir bundið vonir sínar við að uppgangurinn í Kína undanfarin ár myndi hafa góð áhrif á alþjóðahagkerfið. Kínverskt fjármagn hefur streymt um allan heim á undanförnum árum og skipt víða sköpum, en nú gæti það þornað upp, ef svo má segja. Afleiðingarnar gætu orðið skelfilegar.

Tilraunirnar ekki virkað

Það sem hefur einnig vakið athygli er að tilraunir kínverskra stjórnvalda til að stemma stigu við þróuninni hefur ekki skilað neinum árangri. Þeim hefur með öðrum orðum ekki tekist að sannfæra fjárfesta um að ró komist á markaðinn.

Fjármálastofnanir í eigu ríkisins hafa hvatt sjóðsstjóra sem starfa fyrir þær að „selja ekki eitt einasta hlutabréf“, að sögn kínverska fjölmiðilsins Caijing, og þá hafa stjórnvöld í landinu lokað fyrir viðskipti með hlutabréf fjölmargra félaga, í viðleitni sinni til að snúa lækkuninni við. Eins hafa stjórnvöld bannað frekari nýskráningar félaga á kínverska markaðinn og takmarkað einnig fjölda félaga sem fjárfestar geta lagt fé í.

Ekkert af þessu virðist hins vegar hafa virkað. Hlutabréfin hafa haldið áfram að hrynja í verði.

Í morgunpósti IFS greiningu í dag kemur fram að verð hlutabréfa í Kína sé talið vera of hátt þrátt fyrir að CSI 300, sem er markaðsvigtuð vísitala A-hlutabréfa á Shenzhen og Shanghai, hafi tekið enn aðra dýfuna í nótt.

Helstu rökin séu að margfaldarar séu enn þá of háir miðað við samanburð.

„Hlutabréf í kauphöllinni í Shanghai og Shenzhen féllu um 5,9% og 3% í nótt. Viðskipti með hlutabréf í Kína eru lokuð ef þau hækka/lækka um 10% eða meir á einum degi. Lokað var fyrir viðskipti með 71% hlutabréfa í kauphöllinni í Shanghai sem sýnir manni hversu mikill órói er í raun þar á markaði. Hlutabréf í kauphöllinni í Hong Kong féllu um 7,4%,“ segir í morgunpóstinum.

Skuldsett hlutabréfakaup ekki hættulega mikil

Þó er bent á að sumir markaðsaðilar telji að hlutabréfavísitölur í landinu eigi inni um 25-30% hækkun. Margt hafi verið gert að hálfu kínverskra stjórnvalda og PBOC sem ætti að auka hagvöxt og um leið auka trú fjárfesta.

Einnig séu skuldsett hlutabréfakaup ekki hættulega mikil og lækkuðu þau um 7% á mánudaginn.

„Hins vegar er fjárstreymi út úr Kína mikið þar sem hægt er að koma peningum úr landi til Hong Kong í gegnum kauphöllina í Shanhai. Það eru í raun stórar stofnanir sem eru að koma peningunum úr landi en eiga eflaust eftir að koma með hann aftur inn þegar líða tekur á árið eða á því næsta. Árið 2013 voru um það bil 100 milljón hlutabréfareikninga í eigu Jón og Gunnu þar ytra og hafa eflaust aukist síðan þá. Það eru þessir reikningar sem eru að taka mesta höggið og það voru sömu reikningar sem tóku mesta höggið árið 1929 í Bandaríkjunum.“

Hver er sökudólgurinn?

En hver er skýringin á þessari gríðarmiklu hækkun á hlutabréfamarkaðinum? Hver blés upp bóluna, ef svo má segja?

Í umfjöllun Financial Times er bent á að skýringin sé ekki einhlít. Í fyrsta lagi er bent á spákaupmennsku. Almenningur í landinu hefur mikinn áhuga á hlutabréfaviðskiptum og vildu sem flestir taka þátt í „góðærinu“. Í frétt Bloomberg kemur til að mynda fram að nú séu fleiri fjárfestar sem versla með skráð hlutabréf en skráðir flokksfélagar í kínverska kommúnistaflokknum. Fjárfestarnir eru níutíu milljón talsins, en 87,7 milljónir eru skráðir í flokkinn. Einnig hefur verið greint frá því að tæpur þriðjungur kínverskra háskólanema eiga reglulega í hlutabréfaviðskiptum.

Í öðru lagi benda heimamenn á að erlendum fjárfestum, þá fyrst og fremst „harðsvíruðum“ vogunarsjóðum, sé um að kenna. Þeir hafi fjárfest í miklum mæli á kínverska hlutabréfamarkaðinum á undanförnum mánuðum. Vestrænir fjölmiðlar hafa aftur á móti bent á að kínverski hlutabréfamarkaðurinn sé að mestu lokaður fyrir útlendingum. Það hafi fyrst og fremst verið kínverskur almenningur sem keypti hlutabréf á uppsprengdu verði.

Í þriðja lagi benda margir hagfræðingar á að stjórnvöld í Kína hafi sjálf blásið bóluna upp. Seðlabanki Kína hafi til dæmis lækkað vexti og aukið framboð á lánsfé með verulegum hætti. Spákaupmenn hafi nýtt sér það til að fjármagna hlutabréfakaup og ýta hlutabréfaverðinu upp í hæstu hæðir.

Alvarlegra en í Grikklandi

Sumir greinendur telja að hrunið muni skaða kínverska hagkerfið, sem er það næststærsta í heiminum, og gæti jafnvel leitt til mótmæla á götum úti gegn kommúnistaflokknum.

Vísbendingar eru um að hlutabréfaviðskipti hafi aukið hagvöxt landsins um meira en hálft prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Skellurinn muni einnig hafa víðtækari áhrif á allt fjármálakerfið í landinu.

„Hinn lækkandi kínverski hlutabréfamarkaður hefur vakið áhyggjur um kerfisáhættu,“ segir ANZ Banking Group. Kínverskir bankar séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Félagið telur þó ekki rétt - enn sem komið er - að tala um kreppu í þessu sambandi.

Leiðarahöfundur Financial Times telur að þessi ógnvænlega þróun í Kína sé í raun mun alvarlegri en staða mála í Grikklandi og á evrusvæðinu. Hrunið gæti haft mun meiri áhrif en til að mynda upplausn evrusvæðisins. Kínverski skellurinn gæti smitað út frá sér, hægt á bata bandaríska hagkerfisins og bitnað á ríkjum á borð við Þýskaland sem reiða sig á útflutning til Kína.

„Smám saman mun þetta draga aðra markaði niður, vegna þess að umfang krísunnar í Kína er mun stærra en nokkuð sem gerist í Grikklandi,“ segir Alex Wong, framkvæmdastjóri hjá Ample Capital.

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK