Vatnið ekki alltaf dýrara á Íslandi

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Vatnsútflutningur hjá Ölgerðinni hefur vaxið hratt á síðustu árum og að sögn forstjórans Andra Þórs Guðmundssonar skilaði þessi hluti rekstursins í fyrsta skipti jákvæðri afkomu á síðasta ári. Verðmunur á hálfs lítra flösku í Taílandi og á Íslandi hefur vakið athygli en Andri segir verðin mjög mismunandi milli einstakra markaða.

Verðmunurinn hefur vakið athygli á Facebook en þar birtist annars vegar verðið á hálfs lítra flösku af Iceland Spring Water, sem Ölgerðin framleiðir, í verslun við Skeljung á Vesturlandsvegi, sem 10/11 rekur, og hins vegar á veitingastað McDonald's í Taílandi.

Í 10/11 kostar flaskan 349 krónur en á McDonald's er verðið 45 Baht, sem jafngildir tæplega 160 íslenskum krónum. Líkt og á mismunandi markaðssvæðum er verðið jafnframt misjafnt á íslenska markaðnum og ráða þar samningar við einstök fyrirtæki og álagning þeirra úrslitum. Í Hagkaup kostar sama flaska t.d. 139 krónur og því minna en í Taílandi.

Kína stækkandi markaður

Iceland Spring og Ölgerðin eru ekki sama fyrirtæki en Ölgerðin á þó stóran hlut í því fyrrnefnda og sér um átöppun, dreifingu og verðlagningu á Íslandi. Iceland Spring sér hins vegar um útflutninginn. Að sögn Andra er um 90% af framleiddu magni flutt erlendis en í fyrra nam framleiðslan um 11 milljónum lítra.

Andri segir verðin vera mjög mismunandi milli einstakra markaða og bendir á að þau geti verið tímabundið mjög lág á einum markaði þegar fyrirtækið er að reyna ná þar fótfestu og auka framleiðni. Þá koma ýmis önnur atriði til skoðunar líkt og álagning verslana, virðisaukaskattur, skilagjöld og fleira.

Bandaríkin eru ennþá stærsti markaður Iceland Spring en útflutningur til Kína hefur farið stöðugt vaxandi. 

Stefna á að opna vatnsverksmiðju

Vatnið er framleitt í verksmiðju Ölgerðarinnar á Grjóthálsi en því er veitt í gegnum sérstaka borholu. Aðspurður hvort framleiðslan geti haldið í aukna erlenda eftirspurn segir hann næturvaktir fleyta fyrirtækinu nokkuð langt en þær eru í gangi hluta úr árinu.

Hins vegar hefur ætlunin alltaf verið að byggja sérstaka verksmiðju undir vatnsframleiðsluna þegar framleiðslan sprengir húsnæðið að Grjóthálsi utan af sér. Það er hins vegar ekki á teikniborðinu í nánustu framtíð þrátt fyrir að fyrirtækið sé að færast í átt að þessu.

Líkt og áður segir er vatnið selt á McDonald's í Taílandi. Veitingastaðirnir eru alls 202 talsins og var samningnum við skyndibitakeðjuna komið á í gegnum dreifingaraðila Iceland Spring Water í Taílandi.

Að sögn Halldórs Björnssonar, rekstrarstjóra Iceland Spring, er vatnið ekki selt á McDonald's í fleiri löndum en samningnum í Taílandi var landað árið 2011. 

Verðmunurinn í Íslandi og á Taílandi hefur vakið mikla athygli.
Verðmunurinn í Íslandi og á Taílandi hefur vakið mikla athygli. Mynd af Facebook síðu Guðmundar Sigurðssonar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir