Brim kaupir útgerðarfélagið Ögurvík

Vigri RE-71 verður áfram gerður út frá Reykjavík.
Vigri RE-71 verður áfram gerður út frá Reykjavík. Mynd/Ögurvík

Eigendur Ögurvíkur hf. og Brim hf. hafa gert samkomulag um að Brim hf. kaupi allt hlutafé í Ögurvík. Félagið á og gerir út frystitogarann Vigra RE-71 frá Reykjavík og þá hefur félagið rekið söluskrifstofu fyrir sjávarafurðir og vélsmiðju sem m.a. framleiðir toghlera.

Á Vigra RE-71 eru tvær áhafnir, sem skipta með sér veiðiferðum, alls 54 manns. Aflaheimildir skipsins á þessu fiskveiðiári eru um 10.000 tonn upp úr sjó. Sagt er frá þessu í tilkynningu frá félögunum.

Brim hf. á og gerir út þrjá frystitogara frá Reykjavík, Guðmund í Nesi RE-13, Brimnes RE-27 og Kleifaberg RE-70. Aflaheimildir skipanna nema um 24.000 tonnum upp úr sjó. Hjá fyrirtækinu vinna um 150 manns til sjós og lands. Fram kemur í tilkynningunni að Brim hf. hyggist gera Vigra RE-71 áfram út frá Reykjavík. 

„Það er okkur eigendum Ögurvíkur hf. mikið fagnaðarefni að nú þegar við hyggjumst róa á önnur mið þá skuli öflug útgerð í Reykjavík taka við Vigra.  Það er okkur mikils virði að sem minnst röskun verði á högum sjómannanna en margir þeirra hafa unnið hjá fyrirtækinu í áratugi“ er haft eftir Hirti Gíslasyni, framkvæmdastjóra Ögurvíkur, í tilkynningunni.

Haft er eftir Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra Brims, að kaupin falli vel að rekstri félagsins. Segir hann að með kaupunum á Vigra styrkist rekstur Brims. „Það hefur sýnt sig að með stærri einingum verða íslensk sjávarútvegsfyrirtæki öflugri. Það á ekki síst við á erlendum mörkuðum þar sem íslenskur sjávarútvegur á í harðri samkeppni um sölu afurðanna. Það má ekki gleymast að þar ræðst afkoma okkar að stórum hluta,“ er haft eftir Guðmundi í tilkynningunni.

Hjörtur segir í samtali við mbl.is að Ögurvík verði áfram um sinn rekið með núverandi fyrirkomulagi og að ekki verði farið í samrunaaðgerðir strax. Þá segir hann að með í kaupunum séu öll réttindi og skyldur Ögurvíkur og þar með starfsmannasamningar. Aðspurður um hvort gerðar verði einhverjar breytingar á starfsmannahaldi félagsins segir Hjörtur að með sölunni sé „ekki verið að rétta neinum uppsagnarbréf.“

Kaupverðið er trúnaðarmál, en eigendur Ögurvíkur voru Margrét Gísladóttir, Hermann Gíslason, Hjörtur Gíslason og Brynjólfur Halldórsson. Hjörtur segir að viðræðurnar við Brim hafi ekki staðið lengi yfir. Ögurvík var stofnað árið 1971.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK