„Ég er svolítið meyr í dag“

Undirritun samningsins í höfuðstöðvum Nova í dag. Björgólfur Thor Björgólfsson, …
Undirritun samningsins í höfuðstöðvum Nova í dag. Björgólfur Thor Björgólfsson, stofnandi Nova, Liv Bergþórsdóttir forstjóri Nova og Hugh S. Short, stofnandi og stjórnarformaður Pt Capital

 „Þetta er eitt besta val á eiganda og hægt er því hann er eins líkur okkur og hugsast getur. Þeir hafa fylgst með því hvernig starfsfólk og kúnnar Nova hafa verið í mjög nánu samstarfi og hvernig það skilar árangri. Þeir sjá verðmætin í því og vilja halda því gangandi,“ segir Björgólfur Thor Björgólfsson í samtali við mbl.is aðspurður um kaup banda­ríska eign­a­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækisins Pt Capital Advisors á fjarskiptafyrirtækinu Nova.

Hann segir að notendur Nova muni ekki finna fyrir breytingum í kjölfar kaupanna.

Fyrri frétt mbl.is: Nova selt bandarísku fyrirtæki

Fyrirtækið „orðið fullorðið“

Björgólfur Thor segist stoltastur af stofnun Nova á ferlinum og því sé erfitt að sleppa fyrirtækinu. „Við fórum úr engu í stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins,“ segir hann. „Þetta er í raun lítil hugmynd sem hefur sparað íslenskum neytendum 60 miljarða frá stofnun. Fólk talar oft um breytingarnar sem urðu við stofnun Hagkaupa í kringum 1960 og Nova var af sömu stærðargráðu. Þegar við byrjuðum var fólk að borga 25 til 30 þúsund krónur á mánuði fyrir farsíma. Í dag er reikningurinn 4000 krónur.“

Aðspurður hve ástæðan fyrir sölunum sé segir hann að hann sé kominn á önnur mið og að Nova sé nú „orðið fullorðið.“

„Ég sérhæfi mig í því að taka fyrirtæki og byggja þau upp. Nú er Nova orðið númer eitt og þá get ég róað á önnur mið. Það er samt erfitt að sleppa, ég er svolítið meyr í dag. Mér líður eins og þegar ég var að sækja yngsta barnið mitt á leikskóla í síðasta skiptið. En þetta er bara eitthvað sem þurfti að gerast. Ég verð samt alltaf stofnandi Nova.“

Fókusera á íslenskan markað

Björgólfur telur ekki líklegt að Pt Capital Advisor stefni á einhverskonar útrás fyrir Nova. „Þeir eru að fókusera á Ísland og íslenskan markað. Ég efast þó ekki um að þeir ætli að gera eitthvað meira hér á landi með Nova.“

Aðspurður um kaupverðið segir Björgólfur að það verði ekki gefið upp að svo stöddu. „En það var samkvæmt okkar væntingum. Þetta er mjög gott fyrirtæki sem var yfir fjárhagsáætlun í ár. Ég er líka ákaflega stoltur af því að selja fyrirtæki sem skuldar ekki krónu.“

Uppfært: Viðskiptablaðið segir að Björgólfur hafi staðfest í samtali við blaðamann að söluverð Nova væri yfir fimmtán milljörðum króna. Fram kemur í grein Viðskiptablaðsins að Björgólfur ætli ekki að fjárfesta söluandvirðinu hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK