Icelandair skilgreint sem hybrid-flugfélag á markaði

Icelandair er staðsett mitt á millli fullþjónustufélaga og lággjaldafélaga.
Icelandair er staðsett mitt á millli fullþjónustufélaga og lággjaldafélaga.

„Það er stundum látið að því liggja að það séu tvær tegundir flugfélaga sem keppi á markaðnum, annars vegar félög sem kalla mætti fullþjónustufélög og hins vegar svokölluð lággjaldafélög. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru félög sem staðsetja sig mitt á milli slíkra félaga og Icelandair er eitt þeirra.“ Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, en hann fór yfir stöðu félagsins á vel sóttum aðalfundi félagsins sem haldinn var á Reykjavík Hilton Nordica í gær.

Þar fór hann meðal annars yfir skýringarmynd þar sem tekju- og kostnaðargrunnur félagsins er settur í samhengi við önnur flugfélög. Líkt og sjá má á myndinni hér til hægri er Icelandair skipað í hóp sem nefndur er „hybrid flugfélög“.

„Icelandair er sem flugfélagi best lýst með þessum orðum þar sem það býður upp á vöru sem deilir sumum einkennum með fullþjónustufélögum, sem oft eru nefnd legacy-félög, og svo lággjaldafélögum sem rutt hafa sér til rúms á síðustu árum.“

Rekstrarmódel félaganna ólík

Myndin sýnir hlutfall milli tekna og kostnaðar hjá sex flugfélögum og er hann í þessu tilviki mældur út frá tekjum (RASK) og kostnaði (CASK) af hverjum flognum kílómetra, deilt niður á fjölda þeirra sæta sem í boði eru. Er kostnaðurinn mældur og birtur í dollarasentum.

„Líkt og þú sérð þá er Icelandair með mun meiri tekjur á hvern kílómetra heldur en hjá lággjaldaflugfélögum á borð við Norwegian og Ryanair. RASK hjá okkur er 7,2 á meðan það er 4,2 hjá Norwegian og ekki nema 3,4 hjá Ryanair. Á sama tíma er kostnaðarhlutinn auðvitað hærri hjá okkur eða 6,4 í samanburði við 4 hjá Norwegian og 2,2 hjá Ryanair. Sömu sögu má svo segja með fullþjónustufélögin en undir öfugum formerkjum. Þar er bæði CASK og RASK mun hærra heldur en í tilviki Icelandair,“ segir Björgólfur.

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group fór yfir stöðu félagsins á …
Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group fór yfir stöðu félagsins á aðalfundi félagsins á Reykjavík Hilton Nordica í gær. mbl.is/Styrmir Kári

Módel sem hefur sannað sig

Björgólfur segir að sú mynd sem þarna sé dregin upp sýni ágætlega hvernig Icelandair hefur verið byggt upp sem blanda af fullþjónustufélagi og lággjaldafélagi.

„Við veitum farþegum gæðaupplifun eins og mælingar okkar sýna en um leið er kostnaðaruppbyggingin létt. Þetta er módel sem hefur sannað sig og það þarf í raun ekki að líta til annars en þess að síðustu sex rekstrarár eru hin bestu í sögu félagsins.“

Þjónustuframboðið mitt á milli

Icelandair á það sameiginlegt með fullþjónustufélögunum að það býður upp á fjölbreytt farrými, flýgur á aðalflugvelli á þeim áfangastöðum sem það sinnir, býður upp á að viðskiptavinir geti bókað í gegnum fjölbreyttar dreifileiðir, hefur í boði afþreyingarkerfi, og aðgang að þráðlausu neti. Þá býður Icelandair upp á flugskipti og flugvélasamstarf sem veitir viðskiptavinum aukna möguleika til tengiflugs út frá áfangastöðum þess. Þá er Icelandair einnig með virkan vildarklúbb líkt og fullþjónustufélögin alla jafna.

Þjónustan er hins vegar að nokkru leyti takmarkaðri og ákveðnir þjónustuþættir sem greiða þarf fyrir. Þannig eru farangursheimildir til dæmis takmarkaðar, matur og drykkur er til sölu í almennu farrými og áhafnir vélanna eru miðlungsstórar miðað við fjölda farþega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK