Benedikt: Fullvíðtækar ályktanir

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að fullvíðtækar ályktanir um að eitthvað væri yfirvofandi hafi verið dregnar af ummælum hans um peningastefnu Íslands í Financial Times. „Ég sagði að þetta væri eitt af því sem komið gæti til greina,“ segir Benedikt.

Haft var eftir Benedikt að gengistenging krónunnar við evru væri það eina rökrétta í stöðunni „Fjár­málaráðherra Íslands hef­ur viður­kennt að það sé ófor­svar­an­legt fyr­ir landið að viðhalda sín­um eig­in fljót­andi gjald­miðli, aðeins fá­ein­um dög­um eft­ir að gjald­eyr­is­höft­um var aflétt,“ segir í frétt Fin­ancial Times.

Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra brást við þess­um um­mæl­um Bene­dikts í viðtali við Bloom­berg-frétta­veit­una þar sem hann sagði ekki standa til að festa gengi krón­unn­ar við ann­an gjald­miðil.

Evra raunsæislegasti kosturinn

„Það sem ég sagði við blaðamann Financial Times og aðra blaðamenn er að eitt af því sem verður til skoðunar er að tengja krónuna við annaðhvort útlendan gjaldmiðil eða myntkörfu. Og ef það væru útlendir gjaldmiðlar þá væru bara þrír sem við hefðum einhver viðskipti við. Það væru Bandaríkjadollar, breska pundið og evran. Evran væri það sem væri langraunsæislegasti kosturinn í því. Við hefðum mest viðskipti í evrum,“ segir Benedikt í samtali við mbl.

Benedikt segir viðtalið tekið þegar pen­inga­stefnu­nefnd­in var skipuð. „Ég var bara að tala um hvað gæti komið til greina. Hvaða leiðir væru í peninga- og gjaldmiðilsmálum og þetta var ein þeirra,“ segir hann.

„Ég hitti þennan mann fyrir tíu dögum og hann var búinn að tala við mig í símann áður. Þetta sem var haft eftir mér er þegar verið var að skipa nefndina og ég var bara að fara yfir hvað fælist í þessu og mér sýnist að menn hafi dregið fullvíðtækar ályktanir af því að eitthvað væri yfirvofandi þegar ég sagði að þetta væri eitt af því sem gæti komið til greina,“ segir Benedikt.

Benedikt segir tengingu krónunnar við evru vera raunsæjasta kostinn ef …
Benedikt segir tengingu krónunnar við evru vera raunsæjasta kostinn ef gengið verður fest við erlendan gjaldmiðil. AFP

Ekkert ósætti um framhaldið

Spurður hvort ósætti sé um framhaldið innan ríkisstjórnarinnar svarar Benedikt neitandi og vísar til þess ákveðið hafi verið að skipa þessa nefnd. „Stjórnarsáttmálinn er mjög skýr um að nefndin eigi að skila tillögum um það hvernig sé hægt að draga úr sveiflum á gengi krónunnar.“

Benedikt segir gengisfestingu vera eitt af því sem nefndin muni skoða. „Nefndin er að störfum. Og þetta er örugglega eitt af því sem hún mun skoða. En þetta er ekkert sem ég er að finna upp. Til dæmis ríkisstjórnin sem var hérna 1993 til 1999, eða á þeim tíma, þá var gengi krónunnar bundið við myntkörfu. Þannig þetta er ekkert glænýtt og ekki einu sinni eitthvað sem hefur ekki verið reynt á Íslandi,“ segir Benedikt.

Engar galdralausnir

Í viðtalinu í Financial Times er haft eftir Benedikt að það sé alls ekki gott að krónan hafi flökt um 10% síðan ríkisstjórnin tók við fyrir tveimur mánuðum. Benedikt segir flöktið vissulega erfitt fyrir stóran hluta íslensku þjóðarinnar sem stundar utanríkisviðskipti.

Spurður hvort hann muni tala sérstaklega fyrir fastgengi segir Benedikt að verið sé að skoða kosti og galla hinna einstöku leiða. „Eins og forsætisráðherra benti á er engin leið sem er þannig að menn geti hegðað sér hvernig sem þeir vilja. Langoftast kallar þetta á það sama. Það þarf að vera stöðugt verðlag og kaupmáttur þarf að aukast í samræmi við framleiðnivöxt í samfélaginu. Þannig að það eru engir galdrar í þessu.“

„Í kosningabaráttunni lögðum við upp með leið sem er myntráð og þá er það þannig að með ákveðinni aðferðafræði er krónan beinlínis tengd við annaðhvort erlendan gjaldmiðil eða myntkörfu. Það er líka vel þekkt að ég hef stungið upp á þeirri leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK