Ríkið vill selja Íslandsbanka

Stefnt er að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Arion banka þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi. Þetta kemur fram í nýrri eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki sem ríkissjóður á eignarhlut í og hefur verið samþykkt af ríkisstjórninni.  

Ríkið á eignarhluti í fjórum fjármálafyrirtækjum sem eru Landsbankinn hf., Íslandsbanki hf., Arion banki hf. og Sparisjóður Austurlands hf. Eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka er 100%, 13% í Arion banka, 98,2% í Landsbankanum en í stefnunni er farið yfir áform ríkisins gagnvart hverju og einu félagi.

Þegar það kemur að Landsbankanum er hins vegar stefnt að því að ríkið eigi verulegan hlut í bankanum, 34-40% til langs tíma „til að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu og tryggja nauðsynlega innviði þess,“ eins og segir í stefnunni. Eignarhlutur ríkisins í bankanum verður að öðru leyti seldur á næstu árum þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi og þá er stefnt er að skráningu bankans á hlutabréfamarkað.

Í stefnunni segir að þar sem ríkið er minnihlutaeigandi í Arion banka muni salan líklega eiga sér stað samhliða sölu meirihlutaeigandans eða skráningu bankans á hlutabréfamarkað.

Þá er stefnt að því að selja 49,5% eignarhlut ríkisins í Sparisjóði Austurlands um leið og hægt er, „enda ekki markmið ríkisins að vera eigandi sparisjóðsins til langframa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir