Nokkuð viss um að ég hafi gefið út mína síðustu bók

Snæbjörn Arngrímsson útgefandi.
Snæbjörn Arngrímsson útgefandi. Ljósmynd/Aðsend

Segja má að Snæbjörn Arngrímsson bókaútgefandi sé raðfrumkvöðull á sviði bókaútgáfu. Hann hefur nú stofnað og selt sjö mismunandi bókaforlög í fjórum löndum, en nú síðast seldi hann dönsku útgáfurnar Hr. Ferdinand, C&K og Don Max til Politiken í Danmörku. Ferillinn hófst með stofnun bókaútgáfunnar Bjarts og fór á flug með útgáfu Harry Potter á Íslandi. Snæbjörn segist vera hættur í bransanum, og hyggst nú mögulega snúa sér að ræktun á myntu eða ólífum, á búgarði sínum á Suður-Ítalíu. En er þetta kannski allt bara skáldskapur?

„Ég vara þig við, ég er enginn bisnessmaður, þetta er bara skáldskapur og vitleysa, segir Snæbjörn þegar samtal okkar hefst. Blaðamaður vill nú ekki sleppa forleggjaranum svo auðveldlega, og spyr hví þetta hafi þá gengið svona vel, þessi þrjátíu ára útgáfuferill, sem rennur nú sitt skeið með sölu á dönsku forlögunum þremur. „Þetta er auðvitað algjör heppni, ég er hundheppinn,“ segir Snæbjörn og hlær.

Eru viðskiptadeildir háskólanna þá ekkert á eftir þér til að biðja þig um að halda erindi um rekstur bókaforlaga, eða fyrirtækja almennt?

„Mér fannst gaman að því þegar fólk var að spyrja mig af hverju gengi svona vel hjá Bjarti og hver væri galdurinn á bak við velgengnina, þá sagði ég að við notuðum alltaf Sumarhúsmódelið hér í viðskiptum. Fólk vildi þá auðvitað vita meira um þetta merkilega módel, en ég var svo sem ekkert að útskýra það frekar. Eitt sinn hringdi svo til mín maður úr viðskiptadeild Háskóla Íslands og spurði mig hvort ég væri til í að koma og kynna Sumarhúsmódelið í fyrirlestri í viðskiptadeildinni,“ segir Snæbjörn og hlær, og bætir því við að auðvitað hafi hann hafnað því góða boði, enda sé módelið algjört hernaðarleyndarmál.

„Ég held módelinu fyrir sjálfan mig, það er galdurinn á bak við þetta allt. En þetta er allt skáldskapur.“

Ómenntaður og atvinnulaus

Spurður að því hvernig ævintýrið hafi byrjað segir Snæbjörn að hann hafi stofnað forlagið Bjart á meðan hann var í námi í bókmenntafræði í Háskóla Íslands. „Svo þegar ég var kominn áleiðis með námið hugsaði ég með mér: Ég nenni nú ekki að standa lengur í þessu, og ákvað að einbeita mér frekar að forlaginu. Ég sá ekki tilganginn með því að hanga lengur í háskólanum. Ég er því ómenntaður og nú atvinnulaus að auki.“

Snæbjörn segir að hann hafi áttað sig á því snemma að bókaútgáfa var eitthvað sem hann vildi gera í framtíðinni. „Ég fór því og einbeitti mér að því, en fyrstu árin hjá Bjarti voru svolítið basl. Þá var ég einn í þessu og gaf út bækur sem voru ekkert sérlega söluvænlegar. Ég var þarna 25 ára gamall, þriggja barna faðir, og vann ýmsa vinnu í lausamennsku með þessu. Eitt sinn kom endurskoðandinn að máli við mig og benti mér á að það væri heldur lítill arður af útgáfunni, og ég yrði að huga að því að gefa út bækur sem gæfu eitthvað í aðra hönd. Það væri nú hálfgert ábyrgðarleysi, að vera með stóra fjölskyldu og fyrirtæki sem skilaði engum hagnaði. Þá fór ég að líta í kringum mig, og fljótlega fann ég söguna um galdrastrákinn Harry Potter eftir J.K. Rowling. Það var byrjunin á því að allt fór að ganga betur og varð mikill vendipunktur á forlaginu. Þá fór maður líka að geta leyft sér meira með útgáfuna. Svo kom Jón Karl Helgason inn í þetta með mér og það var eins og að fá nýjan mótor í bátinn. Hann er svo heilsteyptur og duglegur og hafði allt sem ég hef ekki. Hann er nákvæmur, en ég er ónákvæmur. Ég á honum margt að þakka. Við unnum svo saman í sex ár eftir þetta.“

Margir muna sjálfsagt eftir tímaritinu Bjartur og frú Emilía sem Bjartur gaf út um árabil, byrjaði áður en Harry Potter kom til sögunnar, og hélt áfram í nokkur ár þar á eftir. „Eins og annað hjá þessu forlagi þá var tímaritið fyrst og fremst okkar einkaskemmtun. Þetta var árið 1991 og við settum upp árgjald sem var það sama og útgáfuárið, þ.e. 1.991 kr. fyrir fjögur tölublöð. Ennfremur ákváðum við að áskriftin myndi hækka um eina krónu á ári, og yrði þannig alltaf sú sama og hvert útgáfuár. Þannig vissu áskrifendur að árið 1999 yrði áskriftin 1.999 krónur. Þetta er hluti af Sumarhúsmódelinu.“

Endurskoðandinn hefur varla verið ánægður með þetta. Hefði ekki verið eðlilegra að láta verðið fylgja neysluverðsvísitölunni?

„Nei. En það eru tvær leiðir; að hugsa í peningum og arðsemi eða að reyna að hafa fjör í þessu. Við völdum fjörleiðina og þá færðu fólk í lið með þér og fleiri áskrifendur en ella. Fólk upplifir að hér sér á ferðinni fyrirtæki sem ætlar sér ekki að græða peninga á því, og vill vera með í þessu. Það má spyrja sig að því hvort módelið laðar að sér fleiri áskrifendur. Ég er ekki í vafa um að okkar módel sé árangursríkara en að hugsa alltaf í krónum og aurum. Nú er ég búinn að uppljóstra um einn lið í Sumarhúsmódelinu sem ég var búinn að lofa að gera ekki!“

Sá Harry Potter á bensínstöð

Útgáfa Harry Potter-bókanna á íslensku var vendipunktur hjá fyrirtækinu eins og fyrr sagði. Fyrsta Harry Potter bókin, Harry Potter og viskusteinninn, kom út hér á landi árið 1999. Sex bækur fylgdu í kjölfarið hver annarri vinsælli.

„Ég sá þessa bók áður en hún sló í gegn erlendis, og keypti útgáfuréttinn fyrir Ísland, en ég vissi ekkert um þessa bók fyrirfram. Á þessum tíma var internetið ekkert komið af stað að neinu ráði og ekki hægt að fylgjast með því hvað var að gerast úti í heimi í útgáfumálum. Það tók langan tíma að átta sig á því til dæmis hver útgáfusaga Harry Potter var o.s.frv. Útgáfu bókarinnar hér á landi seinkaði. Ég hafði fengið mann til að þýða bókina, en hann var svo upptekinn að þetta frestaðist. Svo man ég að það var óvenjugóður sumardagur í Reykjavík og ég var að taka bensín á Shell-stöðinni á Bústaðavegi. Þar verður mér litið upp í blaðarekka á bak við afgreiðslukassann og þar blasir við Time-tímaritið bandaríska, og á forsíðunni er mynd af Harry Potter, og undir henni stóð: Nýjasta fyrirbærið í bókmenntaheiminum.

Ég hreinlega missti andlitið, halló – þetta er bókin mín! Ég hafði þá strax samband við þýðandann, sem var ennþá upptekinn, en fann þá nýjan þýðanda og við þýddum bókina í snarhasti. Svo kom hún út stuttu síðar og varð svona líka vinsæl, og ég varð bæði ríkur og frægur,“ segir Snæbjörn og hlær.

Hann segir að það hafi verið ógleymanlegt að sjá hvað bókin seldist vel. „Við starfsmenn Bjarts gengum í öll störf hjá útgáfunni, unnum á lager, lásum yfir, sáum um bókhaldið og fleira. Eitt af skemmtilegustu augnablikunum í útgáfunni hjá mér var þegar fyrsta Harry Potter-bókin kom út og ég horfði á eftir hverjum sendibílnum á eftir öðrum keyra frá lagernum, fullum af bókum. Þetta fannst mér stórkostleg sjón.“

En getur svona ævintýri endurtekið sig?

„Já, það getur það, og það gerði það náttúrlega. Við stofnuðum útgáfuna Hr. Ferdinand í Danmörku árið 2003 og fyrsta bókin sem við keyptum útgáfuréttinn á var Da Vinci lykillinn eftir Dan Brown! Það var nákvæmlega eins. Við seldum um það bil milljón eintök í Danmörku af þeirri bók. Það er svolítið fjör í því. Þetta var auðvitað bara tóm heppni, en svona er þetta.“

Lygasagan af því hvernig nýstofnað forlag í Danmörku komst yfir útgáfuréttinn á svo gríðarlega vinsælli bók er skemmtileg, skemmtilegri en sú sanna sem er einfaldlega þannig að Snæbjörn fékk bókina senda frá umboðsmanni Dan Brown sem var að athuga með áhuga á útgáfu á bókinni í Danmörku. „Við fáum daglega sendar þrjár eða fjórar bækur, þannig að þetta er alltaf spurning hvaða bók maður velur til að lesa af öllum þeim bókum sem berast á forlagið.

En lygasagan af því hvernig við fengum réttinn að Dan Brown á Íslandi og í Danmörku er hluti af Sumarhúsmódelinu. Lygasagan sem varð nokkuð útbreidd var þannig að ég var staddur í Slóveníu og fór í sund. Það var enginn í lauginni, nema ég og annar maður. Við sátum tveir saman í heita pottinum og ræddum saman, og það kom í ljós að maðurinn var rithöfundur og ég sagði honum að ég væri útgefandi. Hann kynnti sig sem Dan Brown og sagðist vera nýbúinn að skrifa bók og spurði hvort ég vildi kíkja á hana. Ég sagði já já, og þetta var sem sagt Da Vinci lykillinn. Þessa saga er miklu skemmtilegri en sú fyrri. Stundum er gagnlegt að búa til sögu til að vekja áhuga á hlutum, og segja eitthvað skemmtilegt, þó það sé ekki alveg satt. Þetta er hluti af Sumarhúsmódelinu, að fá smá gleði inn í þetta. Þannig færðu fólk til að sjá mig og Dan Brown fyrir sér sitjandi saman í heita pottinum, og svo komum við inn í búningsklefann og hann réttir mér þessa nýju glóðvolgu bók, og fólk hugsar: Þetta var skemmtileg tilviljun. Ég ætti kannski að lesa þessa bók eftir þennan ágæta sundlaugargest.“

En hefurðu hitt Dan Brown?

„Já, við Susanne, sem rekur Hr. Ferdinand með mér, höfum hitt hann og spjallað við hann, og það er alveg satt. Við hittumst í Feneyjum. Við áttum þar stefnumót, en sögusvið bókar hans Inferno er einmitt þar. Hann lofaði að heimsækja okkur til Danmerkur og ég býst við að hann standi við það loforð.“

Reka forlagið í plús án Dan Brown

Auk þess að selja milljón eintök af fyrstu Dan Brown-bókinni í Danmörku seldust næstu bækur einnig gríðarlega vel. „Þessi milljón eintök fóru reyndar á nokkrum árum og í mörgum mismunandi útgáfum. Dan Brown er vinsæll í Danmörku. Við höfum gefið út sex bækur eftir Brown og þær hafa allar selst gífurlega vel.“

Þetta hlýtur að hafa skapað ykkur nokkrar tekjur, þessu litla forlagi?

„Já, þetta var kjölfestan í Hr. Ferdinand, en við höfum alltaf litið þannig á að við verðum að reka forlagið í plús án Dan Brown. Við höfum tekið hann út fyrir sviga. Maður yrði of værukær ef maður hefði alltaf Dan Brown til að bjarga málunum.

Hr. Ferdinand hefur alla tíð einbeitt sér að því að gefa út þýdd skáldverk. „Við stofnuðum forlagið á meðan við konan mín, Susanne Torpe, bjuggum enn á Íslandi, og því var ekki hægt að taka danska höfunda inn í forlagið, þegar höfuðstöðvarnar voru á Íslandi. Síðar stofnuðum við forlagið C & K sem gefur út danska höfunda auk þýddra bóka.

Aðspurður segir Snæbjörn að Hr. Ferdinand hafi aldrei gefið út íslenska höfunda. „Það var bara út af því að þegar við stofnuðum Hr. Ferdinand rak ég Bjart á Íslandi og við vildum ekki skapa úlfúð og leiðindi með því að vera að velja úr hópi höfunda sem Bjartur gaf út. C & K fór svo að gefa út verk eftir Sjón og Bergsvein Birgisson. Þeir hafa selst vel, og Bréf til Helgu eftir Bergsvein fékk ótrúlega góðar viðtökur. Sjón er ákaflega vinsæll í Danmörku, bæði þekktur og viðurkenndur.“

En hvaða aðrir höfundar íslenskir eru þekktir í Danmörku?

„Einar Már Guðmundsson er í uppáhaldi meðal eldri kynslóðarinnar. Svo nýverið skaust Jón Kalmann Stefánsson upp á stjörnuhimininn hér. Hann hefur fengið svo svakalega góða dóma, bæði lesenda og ritdómara. Kristín Marja Baldursdóttir nýtur einnig vinsælda.“

Snæbjörn flutti til Danmerkur árið 2006 og áður en hann seldi Bjart árið 2008, hafði hann keypt útgáfuréttinn á enn einum metsöluhöfundinum, glæpasögum Stieg Larsson, sem slógu eftirminnilega í gegn. „Ég seldi Bjart rétt áður en bankarnir féllu, og það er hluti af Sumarhúsmódelinu, að selja áður en bankarnir falla, segir Snæbjörn og glottir. Hann er nú búinn að uppljóstra um þrennt af því sem er hluti af Sumarhúsmódelinu, þó að það sé algjört hernaðarleyndarmál.

Hefði breytt miklu ef þú hefði beðið í eitt ár með að selja Bjart?

„Já, það voru miklir óvissutímar eftir bankahrunið, og ég held að enginn hefði stokkið til og keypt bókaforlag á þeim tíma. Þarna sérðu hvað ég hef verið heppinn. Ég sá bankahrunið ekki fyrir.“

Eftir sölu fyrirtækjanna í Danmörku á Snæbjörn ekki hluti í neinum útgáfufyrirtækjum, hvorki hér heima né erlendis.

En hefur hann aldrei viljað stofna stórt forlag eða samsteypu?

„Nei, ég hef aldrei haft neinn áhuga á því. Það er grunnhugsunin að halda þessu litlu, þó að við höfum fengið þessa draumabyrjun í Danmörku. Maður verður ekkert glaður með að vera með stórt forlag. Sérstaklega ef maður hugsar eins og við hugsum, við höfum þörf fyrir frelsi. Með stórt forlag er maður settur alveg í járn. Eins og við höfum rekið Hr. Ferdinand höfum við Susanne alltaf getað tekið okkur sex vikna sumarleyfi, það hefðum við ekki getað með risaforlag á herðunum.“

Snæbjörn útskýrir aðdraganda sölunnar á Hr. Ferdinand. „Fyrir tveimur árum ákváðum við fjölskyldan, ég konan mín og tveir synir, að taka okkur frí frá útgáfu, og fórum í níu mánaða ferðalag. Ég vann aðeins á ferðalaginu í fjarvinnu, en annars fengum við ágæta konu til að sjá um þetta fyrir okkur á meðan. Þetta var dálítið upphafið að því að við ákváðum að selja. Ég gerði mér grein fyrir að ég var búinn að vera í útgáfubransanum í 30 ár, og það var kominn tími á að hugsa um eitthvað annað en að gefa út bækur.“

Settuð þið útgáfuna þá á sölu?

„Við höfðum í raun ekki hugsað það upphátt að selja, en hingað á forlagið kom kona í desember síðastliðnum, sem unnið hafði hjá Gyldendal og í danska bókabransanum og spurði hvort hún mætti heilsa aðeins upp á okkur. Ég hélt að hún væri bara að leita að verkefnum, en svo þegar líður á samtalið kemur í ljós að hún er fulltrúi erlends forlags sem hefði áhuga á að komast inn á danska markaðinn, og spyr hvort við værum til í að selja þeim forlagið. Ég sagði strax nei, þetta var bara ekki inni í myndinni, en svo bað hún okkur um að hugsa þetta aðeins, sem við gerðum. Svo rétt fyrir jól, eftir smáumhugsun, hringdum við í hana og sögðumst vera til í að ræða við þessa hugsanlegu kaupendur. Í hönd fóru fjögurra mánaða samningaviðræður sem lauk þannig að í apríl fengum við þetta líka góða tilboð. Við sögðum já takk, og samþykktum tilboðið.

Þá gerist það að stjórn forlagsins erlenda hélt fund um kaupin og komst að þeirri niðurstöðu að þeir væru bara alls ekki tilbúnir að fara inn í Danmörku. Þetta voru auðvitað mikil vonbrigði fyrir okkur. Þarna var ég kominn með hugann út úr bransanum og við hugsuðum okkar ráð. Við ákváðum að hringja í Politiken sem höfðu áður sýnt áhuga á að kaupa okkur, og spurður hvort þau hefðu áhuga núna, og þau sögðu að það kæmi nú aldeilis vel til greina. Við ræddumst við fram í júlí, og náðum þá saman. Verðið er trúnaðarmál, en við fengum það sem við vildum.“

Fimm starfsmenn velta 670 milljónum

Snæbjörn er ekki endanlega hættur hjá Hr. Ferdinand, hann verður að vinna fram í miðjan september við ýmsan frágang. Svo taka við ný ævintýri, eins og hann orðar það, en samkvæmt samningnum við Politiken má hann ekki vinna í útgáfumálum næstu þrjú árin. „Ég held ég fari ekki út í útgáfu aftur, ég er nokkuð viss um að ég hafi gefið út mína síðustu bók.

En getur hann gefið einhverja hugmynd um hvað taki við?

„Kannski fer ég að rækta myntu, eða að ég gerist olífubóndi í fullu starfi á búgarði okkar í Púliu á Suður-Ítalíu, maður veit aldrei,“ Snæbjörn glottir. „Sem stendur getum við framleitt um 500 lítra af ólífuolíu þar, sem er nú bara fyrir okkur og okkar nánasta fólk. Við dveljum þarna öll sumur.“

Snæbjörn segist líka koma reglulega til Íslands, um það bil þriðja hvern mánuð, enda á hann hér þrjú börn auk barnabarna.

Spurður um helstu tölur úr rekstri Hr. Ferdinand segir Snæbjörn að forlögin þrjú hafi gefið út um 30-40 bækur á ári að jafnaði. Starfsmenn séu 5 talsins og ársveltan á bilinu 30-40 milljónir danskra króna, jafngildi 500-670 milljóna íslenskra króna, sem svo aftur aukist þegar þau gefa út Dan Brown bók. Fyrirtækið er skuldlaust.

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir