Það þarf að vara sig á hagfræðinni

G. Sverrir Þór hagfræðingur.
G. Sverrir Þór hagfræðingur.

„Ég ýtti á „publish“-takkann á þriðjudaginn,“ segir G. Sverrir Þór í samtali við ViðskiptaMoggann en hann nýtti sér virkni í Amazon-vefbókabúðinni og gaf nýja hagfræðibók sína út sjálfur, til lesturs á Kindle-spjaldtölvum. Hana má einnig panta í stórri kilju hjá Amazon þar sem bókin er prentuð eftir pöntun. Aðspurður segist hann nú þegar hafa fengið góð viðbrögð.

Bókin er ætluð almenningi og er að hans sögn ádrepa fyrir hagfræðinga og yfirvöld sem styðjast við hagfræðikenningar, eins og hann orðar það. Engin flókin gröf eða formúlur er að finna í bókinni að hans sögn.

„Stór hluti efnahagsstefnu sem stjórnmálamenn leggja fram, áætlunum og frumvörpum, byggist á hagfræðigreinum sem þeir hafa lesið, en hagfræðingar eru ekki alltaf nógu duglegir að leggja fram forsendur fyrir sínum greiningum. Stjórnmálamennirnir sem nota kenningar hagfræðinganna vita því ekki alltaf á hverju greiningin byggist, sem getur verið mjög bagalegt og valdið miklu tjóni.“

G. Sverrir Þór segist meðvitað reyna að vera ögrandi í bókinni. „Til að koma af stað umræðu verður maður að ögra.“

Neytendum ekki um að kenna

Hann segist í bókinni ekki vera á þeirri skoðun að neytendur einir og sér geti sett hagkerfi á hausinn, heldur sé það alltaf kerfinu að kenna. „Menn gagnrýndu Grikki og sögðu ástæðuna fyrir því að þeir hefðu lent í vandamálum í alþjóðlegu fjármálakrísunni þá, að þeir færu svo snemma á eftirlaun. Björgólfur Guðmundsson fjárfestir sagði eftirminnilega að við Íslendingar ættum öll á okkar hátt sameiginlega sök á hruninu, þar sem við hefðum keypt okkur flatskjái. Mín skoðun er sú að það sé ekki neytandanum og einstaklingnum að kenna ef heilt hagkerfi hrynur. Hann neytir innan þess svigrúms sem kerfið, þ.e. markaðurinn og hið opinbera, setur honum. Það er erfitt að skella skuldinni á þá sem hafa ekki forsendur til að greina markaðinn eða hreyfa við honum upp á sitt eindæmi.“

Hann segir máli sínu til stuðnings að fyrir hrun hafi jafnvel nóbelsverðlaunaðir hagfræðingar verið fluttir hingað til lands til að segja að allt væri hér í himnalagi. „Menn eru að misnota hagfræðina og þess vegna er titill bókarinnar: Varúð: Hagfræði. Þetta er ekki vegna þess að hagfræðin sé svo léleg, eða rannsóknirnar illa gerðar, heldur vegna þess að almenningur og stjórnmálamenn vita ekki hvað liggur að baki. Það þarf að vara sig á hagfræðinni, en ég er ekki að gera lítið úr henni.“

En er ekki hægt að kíkja í baksýnisspegilinn og læra af reynslu og mistökum fyrri ára?

„Jú menn reyna það, með misjöfnum árangri. Menn lærðu af kreppunni miklu árið 1929. Ben Bernanke, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sem stóð vaktina þegar síðasta fjármálakreppa reið yfir, var sérfræðingur í kreppunni miklu og vissi hvað menn gerðu rangt þá. Hann prófaði því eitthvað annað en reynt var þá og það náðist betri árangur þótt það hafi ekki verið fullkomið.“

En hvað með Ísland, má draga lærdóm af hruninu sem varð hér á landi?

„Í bókinni ræði ég um mikilvægi þess að fjárfesta í innviðum sem mér finnst ekki hafa mikið verið gert. Ferðamenn streyma til landsins en vegirnir eru til dæmis í slæmu ásigkomulagi. Við bjuggum landið ekki undir þetta eins og við hefðum átt að gera. Innviðir grotna niður ef þeim er ekki viðhaldið. Það sem kom til góða hér á landi var að Íslendingar höfðu sína grunnatvinnuvegi, sjávarútveginn og orkuframleiðsluna. Grikkir til samanburðar hafa í raun enga grunnatvinnuvegi aðra en ferðamennsku. Þeir hafa ekki þetta öryggisnet sem Íslendingar höfðu í sínum grunnatvinnuvegum.“

En hvað með myntina, hefði ekki skipt máli ef Grikkir hefðu getað stjórnað henni eins og Íslendingar gátu gert með krónunni?

„Ég er nú svo mikill Evrópusinni. Ég tel að ef við hefðum haft evruna á Íslandi, þá hefði hrunið ekki orðið svona slæmt. En auðvitað er sveigjanleikinn minni með evruna. Írar eru þó með evru og þeim gekk betur að vinna sig út úr kreppunni en Grikkjum, enda eru þeir með grunnatvinnuvegi, eins og til dæmis þekkingariðnað.

Annar lærdómur sem ég vil draga af hruninu er að hið opinbera fjárfesti. Þú getur ekki sparað þig út úr kreppu, það verður að halda uppi neyslugetu í hagkerfinu. Eitt af því sem ýtti mér af stað í að skrifa þessa bók var að mér fannst Íslendingar alltof værukærir eftir hrunið.“

En hvað með stöðuna í dag, hverjar eru horfurnar, hringja einhverjar viðvörunarbjöllur?

„Það þarf að passa að það sé samhljómur á milli ríkisfjármála og peningastefnu. Ég er líka svolítið hræddur við fullt afnám hafta. Íslenska hagkerfið er mjög lítið og ef einhverjum utanaðkomandi dytti í hug að fella gengið, þá er svo lítið viðnám. Svo er hætta á fasteignabólu. Íbúðabyggingar eru hluti af innviðunum sem hefði mátt hlúa að strax eftir hrun. Það þarf að viðhalda húsnæðismarkaði. Það sama gildir um skóla, sjúkrahús og fleira, sem er hluti af samneyslunni. Oft þarf að auka hana í kreppu. Það kostar peninga að færa Ísland inn í framtíðina.“

Persónulegur stíll

G. Sverrir Þór notar persónulegan stíl og fyrstu persónu frásögn í bókinni, sem er frekar óvenjulegt. Hann er óhræddur við að rekja persónulega hagi sína og greina frá hvernig þeir tengjast tilkomu bókarinnar, eins og til dæmis þegar hann segir frá skilnaði sem dró úr honum orku í langan tíma. „Ég skrifa „ég“ en ekki „við“ eins og tíðkast í fræðigreinum. Ég vil að fólk geti tengt við einhverja persónu. Mér finnst sjálfum skemmtilegra að lesa þannig texta.“

Er von á fleiri bókum?

„Ég skrifa náttúrlega reglulega pistla um efnahagsmál í mínu starfi þannig að það gæti vel verið að ég tæki það saman. Ég hef til dæmis mikinn áhuga á „apple“-hagkerfinu eins og ég kalla það, eða skammsýna hagkerfinu, þar sem ný vara kemur á hverju ári, og því hvernig ferlarnir styttast í sífellu.“

G. Sverrir Þór segir að bókin eigi mikið erindi í dag, þó svo að stór hluti hennar hafi verið skrifaður árið 2011. „Það er skemmst að minnast þrennra nýlegra óánægjukosninga, þar sem fólk kýs með fótunum; Brexit í Bretlandi og forsetakosninganna í Bandaríkjunum og Frakklandi. Þetta sýnir að bókin á erindi í dag. Þarna er kosið gegn kerfinu sem hefur brugðist.“

Bókarkápan.
Bókarkápan.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK