Framboð nýrra íbúða bítur ekki á verðið

Hagfræðideild Landsbankans telur ekki líklegt að aukið framboð nýrra íbúða leiði til verðlækkana vegna þess að þær eru að jafnaði stærri og með hærra fermetraverð en eldri íbúðir. 

Þetta kom fram á morgunfundi Landsbankans í dag þar sem þjóðhagsspá hagfræðideildarinnar var kynnt. Spáð er 19% hækkun fasteignaverðs milli áranna 2016 og 2017 og reiknar hagfræðideildin síðan með að meiri ró færist yfir markaðinn. Gert er ráð fyrir að verð hækki um 8,5% á árinu 2018, 7% árið 2019 og 6% 2020. 

Í hagspánni kemur fram að fasteignaverð hækkaði um 3,2% síðustu sex mánuðina fyrir október en 13,4% síðustu sex mánuði þar á undan sé eingöngu litið til fjölbýlis. Er dregin sú ályktun að hækkunarhrinunni sé lokið.

Þá er bent á að íbúðum til sölu á höfuðborgarsvæðinu hafi fjölgað nokkuð á þessu ári eftir nær stöðuga fækkun á árunum 2015 og 2016 og að sölutími fasteigna hafi lengst. Magnið sé nú svipað og það var á seinni hluta ársins 2015.

Hagfræðideild spáir 28% aukningu á íbúðafjárfestingu í ár, 20% aukningu á næsta ári, 15% aukningu á árinu 2019 og 10% á árinu 2020. Gangi þessi spá eftir mun íbúðafjárfesting fara yfir 5% af vergri landsframleiðslu á árinu 2019.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir