2,2 milljónir erlendra farþega um Keflavík

Um 2,2 milljónir erlendra ferðamanna fóru um Keflavíkurflugvöll árið 2017.
Um 2,2 milljónir erlendra ferðamanna fóru um Keflavíkurflugvöll árið 2017. mbl.is/Hari

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 2.195.271 árið 2017 eða 427.545 fleiri en árið 2016, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Aukningin milli ára nemur 24,2%.

Fjöldi brottfara erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli gefur vísbendingu um þróun í komum ferðamanna til landsins, en þeir sem millilenda hér á landi án þess að yfirgefa flugstöðina í Keflavík eru ekki taldir með, nema þeir séu svokallaðir sjálftengifarþegar.

Fjölgun brottfara erlendra ferðamanna frá Keflavík hefur farið stigvaxandi frá ...
Fjölgun brottfara erlendra ferðamanna frá Keflavík hefur farið stigvaxandi frá 2010. Mynd/Ferðamálastofa

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir kannanir sýna að hlutfall sjálftengifarþega sé afar lágt. Því má áætla að tölur um brottfarir gefi góða mynd af fjölda þeirra erlendu ferðamanna sem ferðast hingað, en um 99% allra ferðamanna sem koma til Íslands fara um Keflavíkurflugvöll.

Bretar og Bandaríkjamenn 41% farþega

Um 680.000 farþegar frá Norður-Ameríku yfirgáfu landið á síðasta ári og fjölgar þeim um 181.000 frá árinu 2016. Það nemur 36,3% af heildaraukningu brottfara á milli ára.

Brottförum Bandaríkjamanna fjölgar mikið á milli ára.
Brottförum Bandaríkjamanna fjölgar mikið á milli ára. Mynd/Ferðamálastofa

576.403 Bandaríkjamenn yfirgáfu Keflavíkurflugvöll á síðasta ári og 322.543 Bretar. Samanlagt voru Bandaríkjamenn og Bretar því 41% erlendra farþega. Þar á eftir fylgdu brottfarir Þjóðverja (7,1%), Kanadamanna (4,7%) og Frakka (4,6%).

Brottförum Mið- og Suður-Evrópubúa fjölgaði um 21,8%, fóru úr 356 þúsund í 434 þúsund. Brottfarir Norðurlandabúa voru samanlagt um 181.000 árið 2017 og fjölgaði þeim um sex þúsund á milli ára.

Vetrarferðir aukast

Aukning varð í brottförum erlendra farþega milli ára á öllum árstíðum. Aukningin var hlutfallslega mest að vori (36,7%) og yfir vetrarmánuðina (32,9%). Að sumri til var aukningin 17,1% og að hausti 15,5%.

Árstíðasveiflur í ferðaþjónustunni virðast smám saman vera að minnka.
Árstíðasveiflur í ferðaþjónustunni virðast smám saman vera að minnka. Mynd/Ferðamálastofa

Rekja má 42,4% af þeirri heildaraukningu brottfara sem varð á milli ára til ferða að vetrarlagi, en hlutdeild vetrarferða fór vaxandi á árinu 2017 hjá öllum markaðssvæðum nema Norðurlöndunum. Fylgir það þeirri þróun sem hefur átt sér stað á síðustu árum í átt að jöfnun árstíðasveiflu.

Ferðamálastofa áréttar að til að álykta um breytingar á umsvifum í ferðaþjónustu þarf að líta til fleiri mælikvarða en bara brottfaratalningar þeirra og Isavia, svo sem fjölda gistinótta og útgjalda ferðamanna.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir