Aftur yfir 1.000 stiga fall hjá Dow Jones

Fylgst með tölunum í kauphöllinni í New York. Dow Jones ...
Fylgst með tölunum í kauphöllinni í New York. Dow Jones lækkaði í dag um rúm 1.000 stig í annað skipti á innan við viku. AFP

Dow Jones hlutabréfavísitalan féll í dag um rúmlega 1.000 stig í annað skipti á innan við viku. Dow Jones féll á mánudag um 1.175 stig, sem var mesta lækkun vísitölunnar á einum degi frá því í fjármálakreppunni 2008.

BBC seg­ir Dow Jo­nes hafa lækkað um 4,15% og hafi við lokun markaða staðið í 23.860 stigum.

Nokkur viðsnúningur hafði verið í kauphöllinni í New York á þriðjudag, eftir fallið á mánudag, en sá viðsnúningur virðist ekki hafa verið varanlegur.

S&P 500 vísitalan lækkaði einnig í dag og féll hún um 100,58 stig eða 3.75% og var í lok dags í 2.581 stigum. Nasdaq vísitalan féll þá um 3,9%, eða 274,8 stig og stendur nú í  6.777,1.

BBC segir lækkun einnig hafa verið á öllum helstu verðbréfamörkuðum í Evrópu í dag.

Breska FTSE 100 vísi­tal­an hafði lækkað um 1,49% við lokun markaða í London og stóð þá í 7.170,69 stigum. Í Frakklandi og Þýskalandi féllu vísitölurnar um 2,6% og 2%.

Óttast menn að verðbólga og vextir muni aukast með auknum styrk alþjóða hagkerfisins og er það talið valda lækkuninni nú.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir