Mesta hækkun íbúðaverðs síðan í maí

mbl.is/Sigurður Bogi

Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,0% milli mánaða í janúar en það er mesta hækkun vísitölu íbúðaverðs milli mánaða síðan í maí í fyrra þegar íbúðaverð hækkaði um 1,8% milli mánaða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði. Mælist 12 mánaða hækkun íbúðaverðs nú 12,8% og vísitala íbúðaverðs hefur nú hækkað tvo mánuði í röð eftir að hafa lækkað milli mánaða í nóvember.

Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði í verði um 1,1% milli mánaða í janúar og verð sérbýlis hækkaði um 0,7 prósent. 12 mánaða hækkun fjölbýlis er nú 11,9%, en 12 mánaða hækkun sérbýlis er 15,2%.

563 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu var þinglýst í janúar sem er svipaður fjöldi og mánuðina á undan. Þeir voru hins vegar um 11% færri en í sama mánuði árið áður.

Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið íbúðaverð í hlutfalli við vísitölu neysluverðs, hefur ekki áður mælst hærra en í janúar. Það hækkaði um 1,1% milli mánaða eftir að hafa lækkað þrjá mánuði í röð. 12 mánaða hækkun raunverðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu er nú 10,2%.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir